Samfélagið í Grindavík mjög háð virkjuninni í Svartsengi
Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku, sagði á upplýsingafundi í Grindavík í gær að allt kapp fyrirtækisins verður á það að reyna, ef kemur upp eldgos, að fyrirbyggja að hraunrennsli skemmi búnað virkjunarinnar í Svartsengi og geta þannig haldið áfram fullri starfsemi, þannig að hún sinni sínu hlutverki.
Svartsengi er mikilvægasta virkjun HS Orku þar sem hún er mikill innviðapunktur fyrir alla grunnþjónustu á Suðurnesjum. Í Svartsengi er framleitt allt heitt vatn sem er notað á Suðurnesjum og þar er einnig stýrt kaldavatns upptöku þannig að öllu neysluvatni á Suðurnesjum er stýrt með dælingu frá Svartsengi. Þá er einnig raforkuframleiðsla í virkjuninni í Svartsengi. Í Reykjanesvirkjun er eingöngu raforkuframleiðsla. Þaðan liggur rafstrengur til Fitja en enginn beinn rafstrengur er frá Reykjanesvirkjun og í Svartsengi.
Samfélagið í Grindavík er mjög háð virkjuninni í Svartsengi. Raforkutenging Grindavíkur er alfarið frá orkuverinu í Svartsengi en notkun Grindavíkur er að jafnaði sex til átta megawött. Kalt vatn til Grindavíkur kemur einnig úr miðlunartönkum í Svartsengi. Vatnið kemur til Svartsengis frá vatnsupptökusvæðinu í Lágum. Dælustöðvar fyrir vatnið eru jafnframt í Svartsengi. Grindavík notar að jafnaði 130 lítra af köldu vatni á sekúndu en fyrirtæki í Grindavík nota umtalsvert af vatni. Heitavatnsframleiðslan er mikilvægust í Svartsengi og Grindavík notar 40-90 lítra á sekúndu.
Kristinn sagði á fundinum í Grindavík að í ljósi mikilvægi starfseminnar í Svartsengi þá leggur fyrirtækið mikla áherslu á órofna starfsemi virkjunarinnar.
„Við erum með vakt allan sólarhringinn og vaktmenn þar sem fylgjast með öllum framleiðslubúnaði og mælingum. Við erum að fylgjast með holutoppsþrýstingi í borholum og það hafa engar breytingar orðið þar þrátt fyrir þessi kvikuinnskot sem eru. Við greinum engar breytingar hjá okkur. Í þessum jarðskjálftum höfum við verið að fylgjast með hvort einhverjar skemmdir hafi orðið á búnaði og getum þá gripið inn í til viðgerða. Virkjunin er mjög vel hönnuð varðandi ýmsan þrýsting, hitaþenslur og svoleiðis. Í jarðskjálftunum hefur búnaður þarna vissulega búinn að hristast mikið en engar alvarlegar skemmdir hafa orðið á krítískum framleiðslubúnaði,“ segir Kristinn.
„Við höfum verið að bæta fjarstýringarmöguleika okkar og við getum fjarstýrt virkjuninni jafnvel þó komi til eldgoss og við myndum þurfa að grípa til rýmingar þá höfum við þann möguleika að fjarstýra virkjuninni að einhverju leyti frá Reykjanesvirkjun í gegnum stjórnkerfið þar,“ sagði Kristinn jafnframt.
Land hefur risið hratt í nágrenni innviða í Svartsengi og Kristinn var ómyrkur í máli þegar hann ræddi þá stöðu sem getur komið upp.
„Ef eldgos hefst á þessum stað sem er verið að ræða um þá er staðan orðin grafalvarleg varðandi þessa grunninnviði okkar sem í raun allt byggir á. Það hefur verið starfandi mjög öflugur hópur á vegum almannavarna sem heitir starfshópur um varnir mikilvægra innviða. Þar er búið að kortleggja alla mikilvæga innviði á svæðinu og stilla upp mögulegum lausnum til að verja þá innviði.“
Hópurinn gerði tilraunir við síðustu eldgos við að setja upp varnargarða og hraunleiðigarða og einnig með að fergja lagnir og reikna út hvernig þessir hlutir þurfa að vera. „Það er komin einstök þekking úr þessum tilraunum. Það er í einhverjum tilfellum hægt að grípa til svona viðbragða“.
Kristinn sagði að ef hraunrennsli er mikið og það kemur upp á mjög vondum stað þá getur í einhverjum tilfellum verið lítið sem ekkert hægt að gera. „Í vissum tilfellum er hægt að vinna með landslaginu og setja upp höft og leiða hraunrennslið annað og þar með að bjarga virkjuninni og starfsemi hennar. Það er erfitt að bregðast við fyrirfram í þessu þar sem ekki er vitað hvar upptökin verða“.
HS Orka er með áform um að bjarga borholusafni virkjunarinnar í Svartsengi, þó svo virkunin sjálf færi undir hraun.
„Ef útséð er með að hægt sé að bjarga virkjuninni þá höfum við engu að síður plön um það að bjarga borholusafninu. Við höfum um tuttugu borholur allt í kringum virkjunina. Þær eru mjög mikilvægar og við myndum leggja kapp á það að hífa holuhúsin af og fergja viðkomandi holu með jarðvegsfyllingum og hraun myndi þá renna þar yfir. Hugsunin er þá að geta sem fyrst aftur verið kominn af stað með framleiðslu í einhverskonar mynd að loknu gosi,“ sagði Kristinn.
Ef virkjunin fer undir hraun þá hefur samstarfshópur verið að vinna að ýmsum lausnum til þess að geta sinnt þeim þörfum sem samfélagið hefur.
„Í stuttu máli eru lausnirnar með kalt vatn og rafmagn að einhverju leyti aðgengilegri en myndu vissulega taka tíma og eru í sumum tilfellum flóknar. Varðandi heita vatnið eru þær lausnir flóknar í framkvæmd og erfiðar,“ sagði Kristinn Harðarson frá HS Orku.