Sameining Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs staðfest
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur staðfest sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs í eitt sveitarfélag. Íbúar sveitarfélaganna samþykktu þann 11. nóvember 2017 að sveitarfélögin skyldu sameinast eftir kosningu í sveitarfélögunum tveimur.
Undir lok árs 2017 tók til starfa stjórn sem hefur það verkefni að undirbúa sameininguna. Fyrsta verkefni stjórnarinnar var að vinna að þeim verkefnum sem nauðsynleg eru til að lögformleg sameining geti farið fram með staðfestingu sveitarstjórnarráðuneytis, í samræmi við sveitarstjórnarlög. Ráðuneytið hefur nú staðfest sameininguna og verður ný sveitarstjórn kjörin 26. maí næstkomandi.
Sameiningin tekur formlega gildi þegar ný sveitarstjórn kemur til fyrsta fundar þann 10. júní, segir á heimasíðu Garðs.