Sameining Fjölbrautaskólans og Keilis í vinnslu
Ýmislegt í starfsemi stofnananna getur fallið saman.
„Við förum bara inn í þetta með jákvæðu hugarfari. Verkefnið kemur frá eigandanum, ríkinu, og við munum skila af okkur skýrslu um miðjan maí. Ríkið mun svo koma með niðurstöðu fyrir lok mánaðarins,“ segir Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en viðræður um samstarf eða sameiningu FS og Keilis á Ásbrú eru hafnar.
Mennta- og barnamálaráðherra skipaði nýlega stýrihóp um eflingu framhaldsskóla. Hópnum var falið að leggja fram tillögur að framtíðarskipulagi til að auka gæði náms og bregðast við breytingum í umhverfi skólanna. Málið var kynnt á starfsmannafundum hjá FS og Keili.
Skólastjórnendur munu vinna með stýrihópnum að gerð skýrslu um kosti og galla þessara sviðsmynda og leggja fyrir mennta- og barnamálaráðherra fyrir lok maí. Í störfum hópsins verður haft samráð við fulltrúa nemenda, kennara og starfsfólk skólanna og aðra hagaðila. Niðurstaða viðræðna mun ekki hafa áhrif á skipulag eða innihald náms á komandi skólaári hjá nemendum og starfsfólki skólanna og heldur ekki hjá þeim nýnemum sem innritast í skólana í vor.
„Að skoða fýsileika sameiningar Keilis við Fjölbrautaskóla Suðurnesja er hvorki það sem Keilisfólk hefur verið að leita eftir né talið þörf á,“ sagði Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis – miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú í Reykjanesbæ, við Morgunblaðið.
Kristján Ásmundsson segir ýmislegt í starfsemi stofnanna geta fallið saman. „Þetta er ekki gert til að skerða námsframboð heldur hitt – til að efla námsframboð á Suðurnesjum.“
Ekki er talið líklegt að húsnæði beggja skóla yrði notað, verði af sameiningu, m.a. vegna fjarlægðar. Finna yrði húsnæði í nágrenni FS til að hýsa starfsemi sem er ekki nú þegar í skólanum. Það ætti ekki að vera vandamál en FS er t.d. að taka í notkun tilbúnar (gáma-) einingar, m.a. vegna stækkunar starfsbrautar. Einnig er möguleiki á öðru húsnæði skammt frá FS.
Vitað er að rekstur Keilis hefur verið erfiður frá fyrstu tíð og ráðherra vill því skoða möguleika á samlegðaráhrifum og ná fram hagræðingu. Rekstur flugskóla hefur til dæmis verið Keili dýr og erfiður. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagðist vona að hann yrði ekki afgangsstærð því hann hafi haft jákvæð áhrif á samfélagið. Keilir var á sínum tíma stofnaður í kjölfar brottflutnings varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Skólahúsnæði á Vellinum var nýtt til starfseminnar. Rekstur Fjölbrautaskólans hefur verið mjög traustur í langan tíma og í vetur var FS kosin „Stofnun ársins“ á Íslandi.