Sameinast Kalka og Sorpa?
Stjórn Kölku - Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja, hefur falið framkvæmdastjóra að óska formlega eftir sameiningarviðræðum við stjórn Sorpu. Einhugur er um málið í stjórn Kölku, samkvæmt því er fram kom á síðasta fundi hennar.
Fyrir nokkru var ákveðið að setja Kölku í söluferli og hefur tilboð um framkvæmd þess borist frá nokkrum verkfræðistofum.
Málefni Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja, sem er sameingarfélag sveitarfélaganna um rekstur Kölku, hafa um tíma verið bitbein milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa lagt mjög þunga áherslu á breytingar á rekstrarformi sorpeyðingarstöðvarinnar en ekki talið sig fá undirtektir frá hinum sveitarfélögunum. Nú í haust komst hreyfing á málin þegar Reykjanesbær sagði sig úr samstarfinu með 6 mánaða fyrirvara.
Auk hugsanlegrar sameiningar við önnur sorpsamlög hefur sá möguleiki einni verið til skoðunar að fyrirtæki á almennum markaði komi að rekstrinum. Sveitarfélögin myndu þá gera þjónustusamning við nýjan rekstaraðila.