Sameinast Garður og Sandgerði?

– Kosið um sameiningu sveitarfélaganna í kosningu á morgun

Atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar fer fram á morgun, laugardaginn 11. nóvember 2017. Kosning fer fram í báðum sveitarfélögum, í Sandgerði er kosið í Grunnskólanum í Sandgerði og í Garði er kosið í Gerðaskóla. Kjörstaður opnar kl. 09:00 og lokar kl. 22:00.

Bæjarstjórnir beggja sveitarfélaga samþykktu á fundum sínum fyrr í haust að kanna hug íbúa til sameiningar að undangenginni vinnu KPMG sem tók saman skýrslu fyrir sveitarfélögin um kosti og galla sameiningar. Efni þessarar skýrslu hefur verið kynnt á íbúafundum, m.a. í þessari viku. Garðmenn fengu kynningu á mánudagskvöld og Sandgerðingar á þriðjudagskvöldið.

Á fundunum bauðst íbúum sveitarfélaganna að koma með spurningar sem margir nýttu sér. Víkurfréttir voru farnar til prentunar áður en fundurinn í Sandgerði fór fram en í Garðinum var m.a. spurt um þróun byggðarinnar, skólamál, þjónustu við aldraða í sameinuðu sveitarfélagi og skuldastöðu sameinaðs sveitarfélags.

Eins og fyrr segir verður kosið á laugardaginn. Strax og kjörstöðum verður lokað verða atkvæði talin í hvoru sveitarfélagi fyrir sig og síðan ætla fulltrúar Garðs og Sandgerði að hittast á miðri leið milli byggðarlaganna og tilkynna úrslitin í beinni útsendingu sem verður á fésbókarsíðu Víkurfrétta. Það verður um kl. 23 á laugardagskvöld.