Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sameina Gerðaskóla og Tónlistarskólann í Garði og auglýsa nýja skólastjórastöðu
Þriðjudagur 14. júní 2011 kl. 10:11

Sameina Gerðaskóla og Tónlistarskólann í Garði og auglýsa nýja skólastjórastöðu


Lagt var til og samþykkt á síðasta fundi bæjarstjórnar Garðs að grunnskólinn Gerðaskóli verði sameinaður Tónlistarskólanum í Garði. Ennfremur var lagt til að hinn sameinaði skóli verði undir stjórn eins skólastjóra. Loks var lagt til, að störf þeirra tveggja skólastjóra sem veita skólunum tveimur forstöðu, verði lögð niður og starf skólastjóra hins sameinaða skóla verði auglýst laust til umsóknar frá og með 1. júlí 2011.

Ákvæði laga nr. 91/2008, um grunnskóla, hafa að geyma heimildir til svokallaðs samreksturs á skólastigi. Samkvæmt 3. mgr. 45. gr. laganna er sveitarfélögunum heimilt að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn skólanefnda. Bæjarstjórn óskar því eftir umsögn skólanefndar um tillöguna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Greinargerð með tillögu:

Sveitarfélagið Garður hefur að undanförnu unnið að skoðun á endurskipulagningu og hagræðingu í starfsemi sveitarfélagins. Markmið endurskipulagningar miða m.a. að hagræða og spara í rekstri sveitarfélagsins, bæta og styðja við starfsemina og að auka skilvirkni. Meðal þeirra atriða sem hafa verið skoðuð sérstaklega í þessu sambandi er samrekstur grunnskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra.

Í skólastefnu sveitarfélagsins Garðs 2007-2010 er gert ráð fyrir því að Tónslistarskólinn færist í sama húsnæði og grunnskólinn, en sú ráðstöfun mun óhjákvæmilega létta mikið undir með foreldrum þeirra barna sem vilja stunda nám í Tónslistarskólanum. Helstu kostir þess að sameina skólana undir einu og sama þaki eru að námið verður samhliða öðru námi grunnskólans auk þess sem unnt er að ljúka skóladegi beggja skóla á sama tíma.

Til lengri tíma litið mun fjárhagslegur sparnaður og ávinningur sveitarfélagsins felast í sameiginlegu húsnæði og samnýtingu þess. Enn fremur blasir við, að með sameiginlegri yfirstjórn mun skilvirkni í starfi, í þágu nemenda og foreldra, aukast til muna við samreksturinn, segir í tillögunni.

Tillagan gerir ráð fyrir að bæjarstjórn nýti sér þá reglu sem tilvitnað lagákvæði hefur að geyma og samþykki sameiningu grunnskólans og tónlistarskólans.

Sameining skólanna mun fela það í sér að starf annars skólastjórans mun leggjast niður. Lagt er til að störf beggja skólastjóra verði lögð niður og nýtt sameinað starf auglýst laust til umsóknar. Rökin fyrir því eru að í hinu nýja starfi felast efnislegar breytingar, m.t.t. til umfangs stjórnunar sem og annarra verkefna sem um ræðir. Þá er eðlilegt, miðað við kringumstæður, að leitast verði við að tryggja jafnræði þeirra sem gegna störfum skólastjóra nú, á þann hátt að báðum verði veitt færi á að sækja um sameinað starf. Loks má benda á, að ákvæði 63. gr. samþykkta, um stjórn og fundarsköp sem og ákvæði greinar 14.1 í kjarasamningum launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, annars vegar vegna grunnskólakennara og hins vegar vegna skólastjórnenda mæla svo fyrir að auglýsa skuli störf laus til umsóknar.


Bókun frá D-lista:
Unnið hefur verið markvisst að þeim breytingum sem lagðar eru til í tillögu um sameiningu skólanna. Leitað til fjölda aðila sem þekkingu hafa á skólamálum. þ. m. t. sérfræðinga Sambands íslenskra sveitarfélaga í skólamálum, Fræðsluskrifstofu Reykjaness, reyndra skólamanna og skólastjóra, kennara og lögmanna. Niðurstaða þessara viðræðna hefur leitt til þeirra niðurstöðu sem tillagan gerir ráð fyrir. Einnig hefur lögmaður og sérfræðingur í vinnurétti verið okkur ráðgefandi í málinu.
Framkvæmd sameiningarinnar verður unnin í samvinnu við yfirmenn skólanna. Hönnun tónlistarskólans í húsnæði Gerðaskóla fari fram á næstu mánuðum og rúmur tími gefin til undirbúnings svo framkvæmdin raski sem minnst eðlilegu skólastarfi.


Bókun frá N lista:
N listinn fordæmir vanhugsuð vinnubrögð meirihlutans, D listans, þegar lagt er til að Gerðaskóli og Tónlistarskólinn í Garði verði sameinaðir undir einni stjórn á næsta skólaári. Tillagan setur undirbúning næsta skólaárs í uppnám vegna þess hversu seint hún er fram komin. Tillagan er illa undirbúin og henni fylgja hvorki fagleg né fjárhagsleg rök.


Breytingartillaga:
Vegna fyrirhugaðar sameiningar Gerðaskóla og Tónlistarskólans í Garði leggur N listinn til að um leið og hagkvæmnisathugun fer fram að allir skólarnir þ.e. Gerðaskóli, Tónlistarskólinn í Garði og Leikskólinn Gefnarborg sameinist undir einni stjórn og kæmi það til framkvæmda á skólaárinu 2012 – 2013. Til þess að þetta sé raunhæft verða allir stjórnendur skólanna og bæjarstjórnarmenn að koma að þeirri vinnu og leiti sér upplýsinga hjá þeim sveitarfélögum sem hafa sameinað skóla undir einn skólastjóra.

N listinn telur að vanda þurfi til verka og þessi tímasetning sem D listinn leggur fram sé algerlega óraunhæf. Þetta getur í fyrsta lagi tekið gildi skólaárið 2012-2013. Það þarf alltaf góðan aðdraganda að stórum breytingum, til þess að árangurinn verði góður og til sóma fyrir alla aðila, skólana, starfsmennina og bæjarfélagið.

Tillagan felld með 4 atkvæðum D lista.


Forseti bar aftur upp tillögu D listans um sameiningu Gerðaskóla og Tónlistarskóla Garðs.

Tillagan samþykkt með 4 atkvæðum D lista, fulltrúi L lista sat hjá og N listinn var á móti.