Sameiginleg viljayfirlýsing um DS aldrei afgreidd
Bæjarráð Reykjanesbæjar segir að um hafi verið að ræða drög að samkomulagi fyrr á árinu
Fram kemur í fundargerð bæjarráðs Reykjanesbæjar sem fundaði í gær að engin sameiginleg viljayfirlýsing hafi verið samþykkt í mars á þessu ári, heldur voru lögð fram drög að samkomulagi. Samkomulagið var afgreitt í öllum sveitarfélögunum sem standa að Dvalarheimilum aldraðra á Suðurnesjum (DS) með fyrirvara um kostnað og rekstrarhæfi. Sveitarfélagið Vogar hafnaði hins vegar drögunum. Fyrirvarar sem gerðir voru stóðust síðan ekki og vegna þess telur bæjarráð sig ekki bundið af meintri sameiginlegri viljayfirlýsingu.
Varðandi samkomulagið frá 2004 um uppbyggingu hjúkrunarheimila í Reykjanesbæ og endurbætur á Garðvangi, þá byggir það að stærstum hluta á aðkomu ríkisins og þar telur bæjarráð allar forsendur hafa breyst verulega. Því telur bæjarráð ekki hagkvæmt að ráðast í endurbætur á Garðvangi vegna aukinna krafna velferðarráðuneytisins um aðstöðu á hjúkrunarheimilum.
Fé til endurbóta hefur einnig verið skorið verulega niður hjá ríkinu og myndi kostnaður að stærstum hluta lenda á Reykjanesbæ. Telur bæjarráð nauðsynlegt að laga sig að breyttum aðstæðum þar sem miklar breytingar hafa orðið á þessum málum síðustu 10 ár. Með aðlögun að nýjum aðstæðum verði öldrunarþjónustan rekin á sem skynsamlegastan og hagkvæmastan hátt.