Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 4. október 2000 kl. 11:29

Salmonellufaraldur á Suðurnesjum - sex einstaklingar hafa sýkst

Tveir sjúklingar á dvalarheimilinu Hlévangi í Reykjanesbæ og einn starfsmaður, hafa greinst með salmonellusýkingu. Grunur leikur á að einn sjúklingur til viðbótar og tveir starfsmenn hafi einnig sýkst en þeir gangast nú undir rannsóknir. Nokkrir hafa verið lagðir inná spítala og eru þeir á batavegi. Að sögn Haraldar Briem, sóttvarnalæknis hjá Landlæknisembættinu, veiktust fyrstu tveir fyrir um tíu dögum en greiningin kom í lok síðustu viku. „Við erum nú að rannsaka uppruna smitsins en grunsemdir okkar hafa beinst að jöklasalati, sem nú er komið úr umferð. Við höfum verið hræddir við síðkomnar sýkingar, þ.e.a.s. yfirleitt koma fyrst upp stórar sýkingar út frá matvælum. Þá veikjast margir en vandamálið er að það kemur fyrir að einstaklingur veit ekki að hann er sýktur og getur smitað út frá sér eftir að faraldurinn er genginn yfir“, segir Haraldur til skýringar og bætir við að þessi tilfelli sem hafa komið upp hér suðurfrá geti verið síðkomnar sýkingar en verið sé að rannsaka það. Meðhöndlun á salmonellusýkingu fer eftir aldri fólks og hversu veikt það er orðið. Að sögn Haraldar fær ungt og hraust fólk yfirleitt enga sérstaka meðferð heldur yfirvinnur það sýkinguna sjálft. Ef sýkingin er hins vegar komin á alvarlegt stig þá fær fólk vökva í æð og sýklalyf. „Salmonellusýkingin sem hefur verið hér á Íslandi er óvenjuleg því hún er ónæm fyrir mörgum sýklalyfjum. Við eigum lyf til að meðhöndla þessa gerð sýkingar en það þarf að velja þau sérstaklega“, segir Haraldur og bætir við að það sé auðvitað alvarlegt mál að vera með ónæma stofna. „Við erum að rannsaka málið á alþjóðlegum vettvangi því samskonar faraldur hefur komið upp á Bretlandi og grunur leikur á að hann sé víðar í Evrópu“, segir Haraldur og leggur áherslu á að fólk gæti fyllsta hreinlætis þegar það meðhöndlar matvæli. „Við viljum benda fólki á að þvo sér vel um hendurnar þegar það lagar mat, skoli allt grænmeti og varist að láta það komast í snertingu við hrátt kjöt.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024