Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sala plastpoka dróst saman um 12% í september
Fimmtudagur 2. nóvember 2017 kl. 09:46

Sala plastpoka dróst saman um 12% í september

Alls fóru 9.000 fjölnotapokar út úr verslunum Samkaupa í september meðan á átaki gegn plastpokum stóð. Segja ekki ólíklegt að farið verði aftur í samskonar átak.

Átak sem verslanir Samkaupa stóðu fyrir í september síðastliðnum skilaði 12% samdrætti í sölu plastpoka á tímabilinu. Um var að ræða átak þar sem meginmarkmiðið var að virkja viðskiptavini í að nota frekar fjölnotapoka í stað plastpoka.

„ Átakið gekk gríðarlega vel. Alls fóru um níu þúsund fjölnotapokar út úr verslunum okkar um land allt á þessu tímabili.  Okkar verslanir hafa verið í miklum vexti þannig að þegar við tökum það inn í voru pokar á hverja afgreiðslu 0,28 núna en 0,31 í fyrra eða alls 12% samdráttur í afgreiðslu á plastpokum. Við getum ekki annað en verið mjög ánægð með þá niðurstöðu enda plastpoka notkun Íslendinga áhyggjuefni,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Átakið fólst í að viðskiptavinum gafst kostur á að mæta með þrjá venjulega plastpoka og skila inn í verslanir Samkaupa og fá í staðinn einn fjölnotapoka. Gunnar segir viðskiptavini hafa verið öfluga í að koma með poka í verslanir og að hafi verslanir Samkaupa tekið á móti talsverðu magni mörg þúsund poka og komið þeim í endurvinnslu.

„Við höfum undanfarin ár unnið markvisst að því að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið og höfum dregið verulega úr sorpi frá öllum verslunum okkar. Auk þess leggjum við mikið uppúr að henda sem allra minnst af matvöru sem komin er á síðasta snúning samkvæmt „best fyrir“ miðanum eða ef varan uppfyllir ekki útlitsstaðla. Í sumar stóðum við einnig fyrir verkefni þar sem strendur á Suðurnesjum voru gengnar og þar safnað fimm tonnum af plasti. Við ætlum því að halda áfram á þessari braut,“ segir Gunnar sem segir margt smátt gera eitt stórt og því sé mikilvægt að allir leggi sitt á vogarskálarnar.

Í ljósi góðra viðbragða við fjölnotapoka átakinu segist hann ekki eiga von á öðru en Samkaup endurtaki leikinn með það að markmiðið að koma enn fleiri fjölnotapokum í gagnið um land allt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024