Sala á Neyðarkallinum hefst í dag
Neyðarkall björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar verður seldur um land allt nú um helgina (31.október-2. nóvember). Salan hefst í dag, fimmtudag. Er þetta í áttunda sinn sem þessi fjáröflun fer fram og er hún orðin ein sú mikilvægasta fyrir björgunarsveitir landsins.
Í ár er Neyðarkallinn í gervi björgunarsveitakonu með fyrstu-hjálpar búnað; sjúkratösku og upprúllað teppi. Fyrsta hjálp er eitt af grunnnámskeiðum sem björgunarsveitafólk tekur og er það með öðru sniði en þau skyndihjálparnámskeið sem almenningur þekkir þar sem miðað er við að hlúa geti þurft að sjúklingi í yfir tvo tíma áður en sérhæfðari aðstoð berst.