Sakfelldur fyrir bensínþjófnað
Maður var í dag sakfelldur fyrir þjófnað, í héraðsdómi Reykjaness, fyrir að dæla bensíni á bifreið sína á bensínstöð N1 Í Vogum og stinga af án þess að greiða þær 5.131 kr sem honum bar.
Atburðurinn átti sér stað í vor þegar umræddur ökumaður ók Impreza bifreið sinni á brott án þess að greiða, en sá hefur áður gengist undir nokkrar sáttir, aðallega vegna brota á umferðarlögum og hlotið tvo refsidóma, báða á árinu 2006. Í janúar það ár var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár og 138.000 króna sekt vegna brota á almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum, auk þess sem ákærði var þá sviptur ökuréttindum í 2 ár. Í mars 2006 var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár og 120.000 króna sekt, vegna brota á sömu lögum.
Ákærði játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi og gekkst við bótakröfunni. Það, auk þess sem hann segist nú vera að leita sér meðferðar vegna fíkniefnaneyslu telst honum til tekna.
Refsing hans er því 30.000 króna sekt sem honum ber að greiða í ríkissjóð auk þess sem hann þarf að greiða N1 krónurnar 5.131 með vöxtum.
Vf-mynd úr safni