Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sagður hafa hunsað skipanir norskra yfirvalda
Föstudagur 24. janúar 2003 kl. 08:57

Sagður hafa hunsað skipanir norskra yfirvalda

Norsk yfirvöld hafa sektað skipstjóra Stakkanessins, sem notað er við björgunaraðgerðir vegna Guðrúnar Gísladóttur KE-15, um 460 þúsund íslenskar krónur. Sektin er fyrir að hafa siglt án hafnsögumanns, farið um ólöglega siglingaleið og hunsað skipanir um að halda sig fjarri Moskenesstraumnum. Þetta kemur fram í norska dagblaðinu Avisa Nordland.Atvikið átti sér stað í byrjun desember þegar Stakkanesið var á leið inn til Lofoten með útbúnað og mannskap til að taka þátt í björgunaraðgerðunum. Er haft eftir lögreglu í Avisa Nordland að skip þurfi alltaf að biðja um leiðsögn á þessu svæði en það hafi ekki verið gert, Stakkanesið hafi ekki farið eftir þekktri siglingaleið og hunsað skipanir strandgæslunnar um að snúa við og sigla inn til Lofoten eftir annarri leið þegar eftir því var óskað. "Þetta er alvarlegt brot á norskum lögum um siglingu erlendra skipa í norskri lögsögu og hefur þetta mál fengið forgang hjá okkur," hefur blaðið eftir Ritu Hermannsen, lögfræðingi lögreglunnar.

Ásgeir Logi Ásgeirsson, sem er í forsvari fyrir björgunaraðgerðirnar í Noregi, segir að skipið hafi farið eftir þeirri siglingaleið sem ákveðin hafi verið áður en skipið lagði af stað frá Íslandi. Í kjölfar strands Guðrúnar hafi reglur um siglingar á þessari siglingaleið verið hertar.

"Skipstjórinn tilkynnir sig þegar hann kemur inn í 12 mílur og aftur þegar hann kemur inn í 4 mílur og þá hringja þeir í hann til baka til að segja að hann megi ekki fara þessa leið en þá er hann farinn í gegnum leiðina. Þessi siglingaleið er hvorki óþekkt né ólögleg, þessa leið fara langflestir bátar. Það var óhapp að við skyldum ekki láta vita fyrr," segir Ásgeir Logi. Hann segir að sektin verði borguð, það sé dýrara að reyna að komast hjá því. Morgunblaðið greinir frá málinu í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024