Saga Suðurnesja rituð
Þann 14. ágúst sl. voru liðin 25 ár frá því fyrsta tölublað Víkurfrétta leit dagsins ljós. Víkurfréttir hafa komið út óslitið í aldarfjórðung. Fyrstu árin kom blaðið út hálfsmánaðarlega eða til ársloka 1982. Þá var blaðið gefið út af Prentsmiðjunni Grágás í Keflavík. Núverandi útgáfufyrirtæki, Víkurfréttir ehf., keypti útgáfu blaðsins um áramótin 1982-3 og þá var strax ákveðið að gefa blaðið út vikulega. Nýja félagið hóf vikulega útgáfu á blaðinu í mars 1983 en fram að því höfðu fyrri eigendur gefið blaðið út hálfsmánaðarlega með nokkrum undantekningum.
Úr verslunum inn á heimili
Fyrstu árin var Víkurfréttum dreift í verslanir og þjónustufyrirtæki, þar sem lesendur nálguðust blaðið. Fljótlega var þjónustan efld í Keflavík og Njarðvík og Víkurfréttir komu sér upp sveit blaðbera sem dreifðu blaðinu inn á heimili alla fimmtudaga. Í öðrum sveitarfélögum var blaðið áfram í verslunum og á bensínstöðvum. Best var þjónustan þó í Höfnum þar sem Jón Borgarsson og fjölskylda sáu um dreifingu blaðsins inn á öll heimili til fjölda ára. Dreifingarþjónustan hefur alltaf verið að eflast og nú sér Íslandspóstur um dreifingu blaðsins inn á öll heimili og í fyrirtæki á Suðurnesjum.
Í sauðalitunum
Fyrstu árin máttu lesendur sætta sig við svart/hvítt blað í viku hverri og enginn kvartaði, enda tíðkaðist að blöðin væru ekki litprentuð. Dagblöðin voru svart/hvít eða prentuð í mesta lagi einn aukalit. Litprentun var í Víkurfréttum um jól og þá aðeins á útsíðum.
Árið 1994 urðu umskipti hjá Víkurfréttum. Prentun blaðsins fluttist frá Prentsmiðjunni Grágás yfir til Stapaprents. Fljótlega eftir þá breytingu var broti blaðsins breytt, síðurnar minnkaðar um 10% og litprentun hafin á um helmingi blaðsins. Stapaprent hafði yfir að ráða prentvél sem gat prentað 16 síður á örk. Þannig voru 8 síður í lit og aðrar 8 í svarthvítu. Allt umfram það var þó áfram í svart/hvítu. Þetta var tímafrek prentun. Litasíður þurftu að vera komnar til prentunar á þriðjudegi í blaði sem kom út á fimmtudegi. Þetta þýddi í raun það að forsíðan var tilbúin tveimur sólarhringum áður en blaðið kom út.
Meiri lit, meiri lit
Á þessum tíma var ásókn í litaauglýsingar að aukast mjög, jafnframt því sem kröfur auglýsenda um að skila auglýsingum til prentunar ekki fyrr en daginn fyrir útgáfudag urðu háværar. Þetta gerðist á sama tíma og mikil tölvubylting varð í uppsetningu blaða en gríðarleg bylting varð við þá breytingu.Það var því ljóst að breytingar varð að gera á prentun blaðsins til að svara kröfum um meiri hraða við vinnslu og lengri skilafrest áður blaðið færi til prentunar. Það var því síðla árs 1999 að Víkurfréttir sömdu við Prentsmiðjuna Odda um prentun blaðsins. Jafnframt var fullvinnsla blaðsins til prentunar komin til Víkurfrétta. Blaðið var því búið að koma sér upp eigin prentsmiðju, þannig þó að prentvélin var á hinum enda símalínunnar. Víkurfréttum er skilað til prentunar á svokölluðu PDF-sniði og sent til Odda um háhraðanet. Fyrstu mánuðina var blaðinu ekið til Reykjavíkur á geisladiskum en eins og svo margt annað, þá hefur þróunin á Netinu verið gríðarlega hröð og það hafa Víkurfréttir nýtt sér. Nú tekur örfáar mínútur að afrita blaðið frá umbrotstölvum Víkurfrétta til prentsmiðjunnar. Þar er blaðið prentað á miklum hraða og í mestu gæðum í einnig af öflugustu prentvélum landsins á góðan pappír. Víkurfréttum er síðan ekið yfir í næsta hús í dreifingarmiðstöð Íslandspósts sem kemur blaðinu til lesenda á fimmtudagsmorgnum.
Afmælisár hjá Víkurfréttum
Það er ekki bara prentaða útgáfa Víkurfrétta sem stendur á tímamótum og fagnar 25 árum, því netútgáfan varð 10 ára þann 15. júní sl. Víkurfréttir hafa verið í fremstu röð á netinu frá upphafi. Víkurfréttir eru fyrsti íslenski fjölmiðillinn sem dreifði fréttum á netinu án endurgjalds. Fyrstu árin var vefurinn þó aðeins uppfærður vikulega á fimmtudögum, þegar blaðið var komið úr prentun. Um áramótin 1999-2000 var hins vegar settur kraftur í vefinn og hann uppfærður daglega með nýjustu fréttum. Aðsóknin fór að aukast umtalsvert við þetta og í dag eru Víkurfréttir á Netinu á topp 10 viku eftir viku sem mest sótti vefur á Íslandi.
Helgarblað og sjónvarpsdagskrá og jafnvel tvisvar í viku
Víkurfréttir hafa prófað ýmislegt á þessari aldarfjórðungs göngu. Sumt gengur og annað ekki. Þannig var Víkurfréttum um tíma dreift tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum. Á þessum tíma var annað vikublað, Reykjanes, gefið út á svæðinu. Dreifingu tvisvar í viku var fljótlega hætt, Víkurfréttir tóku við útgáfu Reykjaness og gáfu það út fyrir Sjálfstæðisflokkinn um nokkurt skeið eða þar til útgáfa þess var lögð niður. Þannig var Reykjanesi dreift á miðvikudögum og Víkurfréttum á fimmtudögum. Nokkrum árum síðar keyptu Víkurfréttir vikuritið Sjónvarps-Pésann sem dreift var á Suðurnesjum. Útgáfa þess var löguð að útgáfu Víkurfrétta en var síðan fljótlega hætt, enda þrengingar á auglýsingamarkaði og ekki pláss fyrir sjónvarpsdagskrárblaðið.
Víkurfréttir hófu útgáfu á Tímariti Víkurfrétta á haustmánuðum 1999. Tímaritið kom út einu sinni það árið en sama haust var gerð tilraun með útgáfu Helgarblaðs Víkurfrétta, sem var blað sem var selt. Sú tilraun varð ekki fullreynd. Viðtökur voru góðar en umtalsverða fjölgun hefði þurfti í starfsliði blaðsins til að gefa út sérstakt helgarblað. Helgarblaðstilraunin stóð í mánuð og gefin voru út þrjú Helgarblöð Víkurfrétta.
Kraftur var hins vegar settur í útgáfu Tímarits Víkurfrétta strax árið 2000 og blaðið gefið út reglulega. Þróunin hefur hins vegar orðið sú að Tímaritið kemur nú sjaldnar út en er veglegra en áður og síðufjöldinn kominn yfir 70 í hverju blaði.
Víkurfréttir gáfu einnig út í mörg ár vikulegt fréttablað Varnarliðsins, The White Falcon.
Barátta við kennitölu-ljónin
Á þessum tíma hafa ýmsir aðilar komið að annarri útgáfu á Suðurnesjum. Lengsta sögu eiga Suðurnesjafréttir og sérstaklega forvitnilegt er að skoða þann fjölda útgáfufyrirtækja sem komu að þeirri útgáfu. Hvert fyrirtækið á fætur öðru var stofnað um reksturinn og oft var samkeppnin við Víkurfréttir hörð. Víkurfréttir stóðu af sér öll kennitölu-ljónin, þrátt fyrir ýmsa tilburði þeirra á markaðnum. Auglýsingaverð sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum voru boðin gegn Víkurfréttum. Víkurfréttir þakka það helst því trausti sem Suðurnesjamenn hafa sýnt blaðinu öll þau ár sem þar hefur verið á markaði þennan aldarfjórðung.
Yfirburðir ár eftir ár
Þrisvar síðasta áratuginn hefur lestur og viðhorf til blaðsins verið kannað af Gallup og ávallt hafa yfirburðir Víkurfrétta komið fram. Nú síðast sýndi könnun þar að rúm 90% Suðurnesjamanna lesa blaðið í viku hverri eða oftar. Þá er ánægja með blaðið einnig mikil. Lestur Víkurfrétta er örugglega heimsmet þegar kemur að lestri eða áhorfi á svæðisbundinn fjölmiðil.
Strandhögg á höfuðborgarsvæðinu
Víkurfréttir ehf. bættu enn einni rós í hnappagatið árið 2002 þegar Víkurfréttir hófu útgáfu á systurblaði í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi 31. október 2002. Blaðið er í sama broti og Suðurnesjaútgáfan og að jafnaði 16-24 síður. Blaðið kemur út á fimmtudögum og borið inn á öll heimili og fyrirtæki á svæðinu í 12.000 eintökum. Samhliða blaðinu er rekinn fréttavefur fyrir sama svæði á slóðinni www.vikurfrettir.is. Starfsmenn ritstjórnar systurblaðsins hafa aðsetur í Hafnarfirði en þar starfa þrír menn við efnisöflun og auglýsingasölu.
Vefur um golf
Nýjasta afurð Víkurfrétta í útgáfumálum er síðan sérvefur um golfíþróttina sem nálgast má á slóðinni www.kylfingur.is. Þar starfar einn blaðamaður í fullu starfi við að skrifa um golf. Þar er fjallað um golf innanlands og utan. Samningar eru við hina heimskunnu efnisveitu Reuters um aðgang að texta og myndum og þá eru ljósmyndarar Víkurfrétta virkjaðir í myndatökur víða um land. Vefurinn hefur fengið fljúgandi start og er orðin gríðar vinsæll.
Fréttastofa Suðurnesja
Þjónusta við aðra fjölmiðla hefur aukist umtalsvert á síðustu árum. Nú er svo komið að Víkurfréttir reka umfangsmikla ljósmyndaþjónustu fyrir Morgunblaðið og Fréttablaðið/DV. Þá hafa Víkurfréttir rekið fréttaþjónustu fyrir Stöð 2 frá árinu 1993 og einnig unnið í þáttagerð fyrir sjónvarpsstöðina SÝN.
Víkurfréttir í sjónvarpsrekstur?
Á afmælisári Víkurfrétta var ákveðið að ráðast í mikla eflingu á þjónustu við sjónvarpsstöðvarnar á sviði frétta og dagskrárgerðar. Víkurfréttir hafa síðustu vikur verið að koma sér upp myndvinnsluveri af fullkomnustu gerð þar sem sjónvarpsfréttir verða klipptar og sendar til sjónvarpsstöðvanna. Þá liggur fyrir að hefja framleiðslu þátta fyrir sjónvarp, auk auglýsingagerðar fyrir sjónvarp. Víkurfréttir hafa mikla trú á þeirri tæknibyltingu sem er að verða í dreifingu sjónvarpsefnis um ADSL-kerfi og munu áður en langt um líður bjóða fólki aðgang að sjónvarpsefni í fullum gæðum á vef Víkurfrétta og á öðrum efnisveitum.
Auglýsingastofa í fjölbreyttum verkefnum
Þá er vert að geta þess að Víkurfréttir reka öfluga auglýsingastofu sem vinnur að fjölbreyttum verkefnum fyrir fyrirtæki og stofnanir á Suðurnesjum. Sú starfsmeni er alltaf að aukast og þar liggur fyrir að ráða fleira fólk í hönnunarvinnu.
Víkurfréttir vinna nú að sérstakri útgáfu til að minnast 25 ára sögu blaðsins en afmælinu verða gerð ítarleg skil síðar á afmælisárinu.
Margir góðir starfsmenn á aldarfjórðungi
Fjölmargir hafa starfað hjá Víkurfréttum þau 25 ár sem blaðið hefur verið gefið út. Sumir hafa stoppað stutt á ritstjórninni, á meðan aðrir hafa verið lengur. Undirritaður hefur starfað hjá Víkurfréttum í 18 ár. Stefanía Jónsdóttir lét af störfum hjá fyrirtækinu í sumar eftir 20 ára starf sem skrifstofustjóri og Aldís Jónsdóttir hefur unnið þar síðan 1989. Páll ritstjóri hefur verið eigandi blaðsins frá árinu 1983 og unnið við það nánast frá stofnun því hann var lausapenni hjá stofnendunum. Fyrstu árin var Emil Páll Jónsson meðeigandi Páls að blaðinu en árið 1993 keypti Páll Ketilsson og fjölskylda fyrirtækið að fullu og Emil lét af störfum. Í dag eru lykilstarfsmenn hjá Víkurfréttum með mikla reynslu af útgáfumálum og annað starfsfólk með góða þekkingu á faginu. Hjá Víkurfréttum ehf. starfa á milli 15 og 20 starfsmenn og er fyrirtækið með skrifstofur í Reykjanesbæ og Hafnarfirði.
Fjölbreytt starf á Víkurfréttum
Framundan eru spennandi tímar hjá Víkurfréttum. Þrátt fyrir að hárið sé farið að grána fyrir alllöngu þá er gaman að mæta í vinnuna alla daga. Annars er það oft sagt að blaðamenn fari aldrei úr vinnunni, þeir séu alltaf vakandi fyrir fréttum. Það hafa verið forréttindi að fá að starfa sem blaðamaður á Suðurnesjum þau 18 ár sem ég hef unnið við blaðið og taka þannig þátt í því verkefni að rita sögu Suðurnesja í formi frétta og frásagna af málefnum svæðisins. Undirritaður er alls ekki að leggja árar í bát, enda bíða spennandi verkefni handan við hornið. Kosturinn við að vinna á fjölmiðli eins og Víkurfréttum er nefnilega sá að þar kynnist starfsfólkið mörgum hliðum mannlífsins og reynir jafnvel fyrir sér í fjölbreyttum störfum innan fyrirtækisins. Blaðamenn eru líka ljósmyndarar og taka jafnvel þátt í að setja upp blaðið fyrir prentun og ráða þannig miklu um framsetningu á sínu efni.
Að lokum óska ég Suðurnesjamönnum til hamingju með 25 ára afmæli Víkurfrétta með óskum um að þeir sýni blaðinu áfram það traust sem verið hefur síðustu 25 árin.
Hilmar Bragi Bárðarson,
fréttastjóri Víkurfrétta.