Safna gömlum GSM-símum til fjáröflunar
Björgunarsveitin Ægir í Garði stendur þessa dagana fyrir söfnun á gömlum GSM-símum í Garðinum, eins og við höfum áður greint frá. Söfnun á símunum er liður í fjáröflunar- og endurvinnsluátaki Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem gengur undir nafninu „Svaraðu kallinu“. Samkvæmt nýjum fréttum hafa um 10.000 síma safnast á landinu öllu til þessa. Átakinu lýkur á morgun.
Gömlu GSM-símarnir verða sendir til endurvinnslu þar sem þeir öðlast nýtt líf og verða sendir til þróunarríkja í Afríku og Asíu.
Björgunarsveitir hafa undanfarið safnað símum á flugeldasölustöðum sínum. Björgunarsveitin Ægir í Garði er ekki með flugeldasölu en söfnunarkassa verið komið fyrir í verlsun SamkaupStrax í Garðinum. Þar verður kassinn fram á þrettándann og eru Garðbúar og velunnarar björgunarsveitarinnar hvattir til að koma gömlum GSM-símum í söfnunarkassann. Um er að ræða mikilvæga fjáröflun fyrir Björgunarsveitina Ægi og jafnframt þjóðþrifamál þar sem gamlir GSM-símar öðlast nýtt líf í fjarlægu landi.