Sægreifinn á land
Nú síðdegis tókst að koma Sægreifanum, litlum plastbát, á land í Grófinni eftir að hann sökk í höfnina um síðustu helgi. Sægreifinn var sjósettur þann 15. júní og sökk um helgina af ókunnum ástæðum.
Kafari vann við að lyfta bátnum upp af hafnarbotninum og til starfans notaðist hann við belgi sem hann dældi lofti í og upp mjakaðist báturinn hægt og rólega. Frá bryggjunni var báturinn svo dreginn að dráttarbrautinni.
Erfiðlega gekk að koma bátunum, sem var fullur af sjó, í kerruna en hópur vegfarenda kom eigandanum, Kristjáni Júlíussyni, og kafaranum til aðstoðar. Að lokum tókst að koma Sægreifanum á land en talið er að sjór hafi komist inn um loku í bátunum við utanborðsmótorinn í skuti bátsins.
Ekki er vitað hvernig sjórinn komst í bátinn en líklegt þykir að einhverjir hafi farið um helgina í leyfisleysi um borð í bátinn og verið helst til of margir svo báturinn fór að taka inn á sig sjó.
Eigandinn Kristján Júlíusson hafði nýverið keypt bátinn og hugðist selja hann strax aftur en Kristján hafði m.a. keypt nýjan utanborðsmótor í bátinn sem nú er ónýtur.
[email protected]