Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rýmingaræfingar á leikskólum byrjaðar
Mánudagur 15. september 2003 kl. 21:51

Rýmingaræfingar á leikskólum byrjaðar

Rýmingaræfingar í leikskólum og grunnskólum á Suðurnesjum hófust í morgun þegar Brunavarnir Suðurnesja settu brunaviðvörunarkerfi leikskólans Hjallatúns í gang. Leikskólinn var fylltur af reyk og börnin komu í hópum út með leikskólakennaranum sínum, en reglulega fara fram æfingar hjá börnunum hvernig eigi að yfirgefa leikskólann ef hætta er á ferðum. Allir skiluðu sér út nema tölvuviðgerðarmaður sem var að störfum í byggingunni.

Eitthvað skolaðist brunaboðið frá leikskólanum til í morgun, því þrettán mínútur liðu frá því kerfið var sett í gang og þar til öryggisfulltrúi frá þjónustuaðila viðvörunarkerfisins kom á staðinn. Þá var slökkvilið Brunavarna Suðurnesja löngu komið, þó svo það hafi átt að vera í verkahring öryggisfulltrúans að kalla út slökkviliðið. Leikskólakennurum og þeim sem skipulögðu æfinguna var hins vegar farið að leiðast biðin og óþarfi að hafa börnin of lengi úti í haustkuldanum.

Gerður Pétursdóttir, leikskólastjóri, var að vonum ekki ánægð með viðbragð þjónustuaðila brunaviðvörunarkerfisins. Hún ætlaði að láta þessa æfingu klárast og síðan var stefnan tekin á að leita úrbóta. Hún sagði ástandið hafa verið miklu betra áður, þegar Brunavarnir Suðurnesja sáu um eldvarnakerfið. Þá hafi aldrei liðið meira en þrjár mínútur frá því að kerfið fór í gang og þar til slökkviliðsbíllinn var kominn á staðinn. Börnin á Hjallatúni njóta þess að strákarnir á slökkvistöðinni sjá leikskólann út um gluggana hjá sér og ef raunverulegur eldur kæmi upp væru t.a.m. gsm-símar notaðir óspart til að hringja í Neyðarlínuna.

Næstu daga og vikur verða haldnar samskonar æfingar í öllum leikskólum og grunnskólum á starfssvæði Brunavarna Suðurnesja og í Reykjanesbæ eru kerfin ekki tengd til Brunavarna Suðurnesja og því eru þessar æfingar mikil prófraun fyrir þá aðila sem koma að öryggismálum að bregðast við á sem skemmstum tíma.

Börnin á Hjallatúni fengu þó eitthvað fyrir sinn snúð, því eftir æfinguna var boðið á rúntinn í slökkvibílnum og sjúkrabíl.

 

Meðfylgjandi myndir eru frá æfingunni við Hjallatún í morgun.

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024