Rússi gerði fimm lögreglubíla óstarfhæfa
Lögreglan á Suðurnesjum hefur rússneskan karlmann á þrítugsaldri í haldi grunaðan um stórfelld eignaspjöll með því að hafa stungið göt á hjólbarða fimm lögreglubifreiða við lögreglustöðina í Keflavík.
Maðurinn hafði áður verið stöðvaður af lögreglu um eittleytið í nótt vegna gruns um ölvun við akstur og færður á lögreglustöðina til sýnatöku og honum var sleppt að því loknu.
Síðar sl. nótt urðu lögreglumenn þess varir að stungið hafði verið á dekk lögreglubíla við lögreglustöðina. Nýfallinn snjór var á jörðu og gátu lögreglumenn rakið spor frá bílunum að heimili mannsins. Var hann handtekinn og færður í fangageymslu. Að sögn lögreglunnar virðist maðurinn hafa reynt að hylma spor sín í snjónum rétt áður en hann kom að heimili sínu með því fara úr skónum.
Lögreglan lítur á atvikið alvarlegum augum enda var stór hluti lögreglubíla umdæmisins í óökufæru ástandi og mikil hætta hefði getað skapast ef upp hefði komið neyðartilfelli.
Bílarnir standa ennþá með sprungin dekk utan við lögreglustöðina en reynt verður að fá dekkjaverkstæði til að skipta um dekkin í dag, jóladag.
Maðurinn verður yfirheyrður seinna í dag.
Myndir: Lögreglubílarnir með sprungin dekk utan við lögreglustöðina í Keflavík í birtingu í morgun. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson