Ruslaralýður á ferð
Hestamenn sem áttu leið um Skeifuna svokölluðu, sem er áningarstaður mitt á milli Garðs og Mánagrundar, riðu fram á óskemmtilega sjón á dögunum. Þar hafði kerruhlassi af rusli verið hent á víðavangi.
Þar mátti finna sjónvarp, segulbandstæki, dýnur, tölvulyklaborð, brotinn spegil, skápa, brúsa með olíu í, og ýmislegt annað dót sem ætti frekar heima í móttökustöð Kölku sem er steinsnar frá.
Sumt af sorpinu er merkt þeim sem er sennilega eigandi þess og er sá hinn sami hvattur til að taka upp óreiðuna eftir sig.
Hestamenn sem bentu Víkurfréttum á þessa óhæfu sögðu að mikið væri um að fólk henti rusli fjarri alfaraleið, helst við trönurnar. Þeir vildu ennfremur benda á að reiðvegirnir á þessu svæði séu eingöngu fyrir hestafólk en ekki fyrir vélknúin tæki eins og fjórhjól og vélhjól.