Runólfur hættir sem framkvæmdastjóri, mikill vöxtur og góð afkoma árið 2008
Aðalfundur Keilis, miðstöðvar vísinda fræða og atvinnulífs var haldinn á gamla varnarsvæðinu á Vallarheiði fyrr í dag. Á fundinum lét Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri félagsins frá stofnun þess af störfum.
Árið 2008 var fyrsta heila rekstrarár Keilis og óhætt er að segja að árið hafi verið félaginu gjöfult. Við stofnun Keilis voru honum sett skýr markmið af eigendum og stofnendum til næstu fimm ára. Segja má að þeim markmiðum hafi flestum verið náð strax á liðnu ári en í árslok voru íbúar á háskólasvæðinu á Vallarheiði um 2000, nemendur Keilis um 500 og eigið fé félagsins hefur hækkað verulega og nemur nú tæplega 480 milljónum króna. Markmið varðandi fjölda íbúa, nemenda og fjárhagslega stöðu hafa því náðst á fyrstu tveimur árunum í starfi Keilis.
Keilir byggist upp á fjórum mismunandi skólum auk Háskólabrúar þar sem undirbúningsnám fyrir háskólanám fer fram í samstarfi Keilis og Háskóla Íslands. Skólarnir eru Heilsu- og uppeldisskóli, Orku- og tækniskóli, Samgöngu- og öryggisskóli og Skóli skapandi greina. Hver þeirra hefur sínar áherslur í samræmi við markmið Keilis að byggja á mikilvægi alþjóðaflugvallar og umhverfisvænum auðlindum en jafnframt að nýta þá þekkingu sem er til staðar í nærumhverfinu. Að auki eru innan fyrirtækisins þrjár stoðdeildir: Kennslusvið, þjónustusvið og rekstrarsvið.
Megintekjustofnar félagsins þríþættir: Tekjur af kennslu og rannsóknum, tekjur af útleigu og umsýslu húsnæðis á kampus og tekjur af sjóðum félagsins og öðrum eignum. Rekstrartekjur félagsins á liðnu ári voru rúmar 585 mkr, og skiptast þannig að tekjur af kennslu og rannsóknum voru 262 mkr, þjónustutekjur húsnæðis voru 130 mkr. og aðrar tekjur og 193 mkr. Að teknu tilliti til fjármunatekna sem voru 76 mkr, voru heildartekjur Keilis því 661 mkr. en heildargjöld 464 mkr.
Á fundinum sagði Runólfur Ágústsson, fráfarandi framkvæmdastjóri m.a.: „Rekstur kennslu og rannsókna hjá Keili var í góðu samræmi við áætlanir en ljóst er að varla má nú vænta hagnaðar af slíkri starfsemi. Góða afkomu félagsins á árinu 2008 má hins vegar fyrst og fremst þakka góðri fjármögnun Keilis við stofnun hans og þeim tekjum sem við höfðum á liðnu ári vegna þess af eignum félagsins og sjóðum. Þær eignir hafa starfsmenn Keilis ávaxtað vel af trúmennsku við eigendur sína og sýnt í þeim efnum varfærni og skynsemi á viðsjárverðum tímum“.
Runólfur sagði jafnframt: „Strax í desember sl. gerði ég formanni stjórnar grein fyrir þeirri ákvörðun minni að endurnýja ekki ráðningarsamning minn sem rann út hinn 1. mars sl. Grundvöllur þeirrar ákvörðunar er fyrst og fremst sá að ég tel að Keilir hafi náð þeim markmiðum sem skilgreind voru í upphafi og ég var ráðinn til að sinna. Starfi mínu er að því leyti lokið. Ég er sannfærður um að þessi ákvörðun mín, þótt hún væri mér erfið, er rétt bæði fyrir mig og Keili.“
Árni Sigfússon, stjórnarformaður Keilis sagði á fundinum: „Ég færi Runólfi Ágústssyni, sem nú lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Keilis, innilegar þakkir fyrir frábært starf. Með leiðsögn hans og eldmóði hefur verkefni Keilis náð dýpt og krafti með undraverðum hraða. Uppbyggingin á þessu fyrrum varnarsvæði þykir hafa tekist svo vel að erlendir aðilar með sambærilega reynslu af lokun herstöðva telja það vera eitt best unna umbreytingaverkefni í heimi.“