Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 16. desember 1999 kl. 23:35

RÚNAR ROKKAR FYRIR SÚLU

Rúnar Júlíusson og Hitaveita Suðurnesja fengu menningarverðlaun Reykjanesbæjar 1999. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Frumleikhúsinu fimmtudaginn 2. desember. Guðbjörg Ingimundardóttir, formaður menningar- og safnaráðs og Einar Örn Einarsson, varaformaður ráðsins afhentu verðlaunin en þetta er í þriðja sinn sem þau eru afhent. „Menningarverðlaunin eru hugsuð sem viðurkenning fyrir fólk sem hefur skarað framúr í sveitarfélaginu og auðgað menningarlífið án þess að að falla endilega undir skilgreininguna listamaður“, sagði Guðbjörg Ingimundardóttir. Rúnar Júlíusson og Hitaveita Suðurnesja eru vel að þessum verðlaunum komin enda hafa þessir aðilar sett sterkan svip á menningarlífið á Suðurnesjum í gegnum árin. Hljómar gerðu garðinn frægan fyrr á árum en Rúnar Júlíusson var bassaleikari og söngvari þeirrar hljómsveitar. Hljómar áttu stóran þátt í að koma Keflavík á kortið og bærinn varð þekktur sem bítlabærinn. „Rúnar Júlíusson er einn af guðfeðrum bítlamenningarinnar í Keflavík og jafnframt sá eini sem býr hér enn. Hann er enn á fullu í tónlistarbransanum og er safnvörður poppminjasafnins á Glóðinni“, sagði Guðbjörg. Guðbjörg sagði að Hitaveita Suðurnesja hefði einnig lagt gífurlega mikið af mörkum til menningarmála og að fyrirtækið bæri menningu landsins mjög fyrir brjósti. „Hitaveitan hefur styrkt einstaklinga í listnámi og einnig tekið á móti ferða- og fræðimönnum í Svartsengi og haldið þar fyrirlestra um jarðfræði og menningu landsins“, sagði Guðbjörg. Rúnar Júlíusson sagði að hann væri alveg í skýjunum með verðlaunin og að þau hafi komið honum á óvart. „Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið þessi verðlaun og það er gaman að finna að fólk metur það sem ég hef verið aðgera s.l. 37 ár. Það er sjaldgæft að dægurtónlistarmönnum sé gert svona hátt undir höfði og mér finnst þetta vera góð viðurkenning“, sagði Rúnar. Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja, veitti verðlaununum viðtökur fyrir hönd Hitaveitunnar. Hann sagði við þetta tilefni að verðlaunin væru ánægjuleg og hvatning til að halda ótrauðir áfram á sömu braut og gera enn betur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024