Rúmlega 21 milljón rúmmetrar og þrýstingur eykst
Rúmlega tuttugu og ein milljón rúmmetra af kviku hefur safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi. Aldrei áður hefur safnast svo mikil kvika fyrir á svæðinu áður í aðdraganda eldgoss. Fyrir síðasta eldgos, 29. maí, höfðu 20 millónir rúmmetra safnast fyrir. Þar áður höfðu mest safnast 13 milljónir rúmmetra áður en gaus.
Þrýstingur eykst dag frá degi og búist er við því að það geti gosið hvenær sem er. Í hádegisfréttum RÚV var rætt við Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðing hjá Veðurstofu Íslands, sem lýsti áhyggjum af því að sofið væri nyrst í bænum, á svæði sem skilgreint hafi verið með óásættanlegri áhættu.
„Eftir því sem að rúmmálið eykst þá eykst magn kviku sem þarf að komast upp á yfirborðið, þá aukast líkurnar á því að þetta geti lengst lengra til suðurs og jafnvel farið inn fyrir varnargarðana. Þannig að sá möguleiki, við verðum að halda honum á lofti, sérstaklega af því að það er náttúrulega bær þarna og fólk á svæðinu,“ sagði Benedikt í hádegisfréttum RÚV.
Þó svo vísindafólk búist við því að gosið geti á hverri stundu, þá er þeim möguleika einnig haldið opnum að ef eldstöðin þarf að bæta við sig því kvikumagni sem var milli síðustu atburða, sjö milljónum rúmmetra, þá getur það tekið tvær til þrjár vikur til viðbótar. Það er hins vegar óvissa sem enginn hefur svör við í dag nema móðir náttúra.