Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rúm 42 kíló af hörðum fíkniefnum haldlögð
Fimmtudagur 18. janúar 2018 kl. 09:16

Rúm 42 kíló af hörðum fíkniefnum haldlögð

Í 46 fíkniefnamálum sem upp komu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á árinu 2017, lagði rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum (LSS) hald á rúmlega 42 kíló af hörðum fíkniefnum. Þar af voru  rúm 35.000 grömm af kókaíni, tæp 7.000 grömm af amfetamíni, 196 grömm af metamfetamíni og 61 gramm af ecstasy (MDMA).  Auk þessa voru haldlögð rúmlega 240 grömm af hassi. Rannsóknir allra þessara mála voru á borði rannsóknardeildar LSS.

Undirstrikað er að um bráðabirgðatölur er að ræða, sem kunna að taka smávægilegum breytingum þegar endanlegt heildaruppgjör ársins liggur fyrir.
Sá einstaklingur er reyndist hafa mesta magn fíkniefna innvortis var belgískur mikið fatlaður karlmaður sem var með rúmlega eitt kíló af kókaíni í 106 pakkningum. Er það mesta magn sem fundist hefur í einum einstaklingi í innvortis fíkniefnamálum hingað til.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Styrkur haldlagðra efna í innvortis málum er yfirleitt mjög mikill eða um 90%. Styrkur í haldlögðum neysluskömmtum á götunni er á bilinu 7 – 15%. Því má ætla  að margfalda megi ofangreind 42 kíló með  7 eða 8 sem gerir þá rúmlega 300 kíló af hörðum fíkniefnum á götum úti.
Langflest þessara mála eiga upptök sín hjá tollvörðum sem hafa með höndum mjög virkt og skipulegt eftirlit í flugstöðinni. Sú leið að reyna að smygla fíkniefnum þá leiðina verður því að teljast mjög áhættusöm fyrir þá sem það reyna.  Að auki má minna á afdrif rúmlega tvítugs íslensks karlmanns sem kom með 42 pakkningar innvortis til landsins í október. Ein pakkningin tók að leka og var hann fluttur lífshættulega veikur með hraði á Landspítalann þar sem hann undirgekkst rúmlega þriggja klukkustunda skurðaðgerð.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja  til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.