Rukkaður um 4900 kr. á dauðastundinni
Árni Einarsson dó á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um þarsíðustu helgi. Fékk hjartastopp og kvaddi þennan heim. Skömmu síðar kom hann til baka eftir að aflraunamaðurinn Sturla Ólafsson, sem einnig starfar sem sjúkraflutningamaður, hafði hreinlega lamið hann í gang að nýju. Það þurfti þó að beita hjartastuðtæki úr sjúkrabílnum á Árna til að fá hjarta hans til að slá að nýju.
Áður en þessi ósköp dundu yfir hafði Árni hjólað með þungan verk fyrir hjartanu utan úr Helguvík og lengstu leið heim til sín. Þar tók hann heimilisbílinn og ók sjálfur að sjúkrahúsinu og þurfti að standa skil á komugjaldi upp á 4900 krónur áður en hann náði til læknis og dó.
Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður, heimsótti Árna réttri viku eftir að hann hafði dáið. Hann var þá nokkuð sprækur á heimili sínu og nýlega kominn heim af hjartadeildinni þar sem fannst blóðtappi nærri hjartanu.
- Viðtalið er í Víkurfréttum í dag en blaðið er nú í dreifingu á Suðurnesjum. Viðtalið verður hægt að lesa hér á vf.is síðar í dag.