Rottur og minkur herja á Grindvíkinga
Að undanförnu hafa borist ábendingar um rottur í byggðinni í Grindavík. Frá þessu segir í tilkynningu frá sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Grindavíkurbæjar. Heilbrigðiseftirlitið er búið að setja niður eitur (fóðurstöðvar) víðsvegar í bænum miðað við þær ábendingar sem inn hafa komið og var m.a. eitrað í síðustu viku. Íbúi í Grindavík sem ræddi við Víkurfréttir í dag sagðist hafa veitt tvær stórar rottur við hesthúsabyggðina í Grindavík í liðinni viku. Þá veiddi annar íbúi í bænum mink við Marargötu í Grindavík í gærkvöldi.
„Ástæður þess að rotturnar eru sýnilegri en áður geta verið margar. Sumarið er búið að vera ótrúlega hlýtt og gott. Þá geta framkvæmdir við höfnina hafa orðið til þess að koma hreyfingu á skepnurnar,“ segir Ingvar Þ. Gunnlaugsson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs í tilkynningu frá bæjarfélaginu.
„Jarðvegstippur bæjarins ber þess merki að vera notaður sem ruslatunna og hefur umgengni verið afar slæleg og ástandið það slæmt að íbúar eru að henda öllu rusli í stað einungis garða- og jarðvegsúrgangs.
Undirritaður brýnir fyrir fólki að ganga betur um og henda einungis garðaúrgangi og jarðvegsefnum á tippinn.
Verum börnum okkar góð fyrirmynd og göngum betur um okkar umhverfi,“ segir Ingvar Þ. Gunnlaugsson í tilkynningunni.