Rotaður, réttindalaus, ber að ofan og grunaður um ölvun
Réttindalaus vélhjólamaður, grunaður um ölvun við akstur, fékk að gista fangageymslur lögreglunnar á Suðurnesjum í dag eftir að hann var hirtur upp meðvitundarlaus við Sandgerði.
Maðurinn var á motorcrosshjóli sem hann missti vald á með þeim afleiðingum að hann þeyttist út fyrir veg og rotaðist. Hafði hann legið þar um nokkurn tíma þegar vegfarendur komu auga á hann. Ökumaðurinn var með hjálm sem hafði losnað af höfði hans við fallið. Hann var léttklæddur, ber að ofan og með peysu bundna um hálsinn.
Lögreglumenn hlúðu að manninum, sem komst fljótt til meðvitundar. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Meiðsli hann reyndust minni háttar og gistir hann nú fangageymslur lögreglunnar og bíður yfirheyrslu.
Síðdegis í gær voru tveir ökumenn teknir í Reykjanesbæ grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.