Rosabaugur yfir Reykjanesbæ
Rosabaugur um tunglið vakti talsverða athygli í gærkvöldi í Reykjanesbæ. Rosabaugur um tungl er sjaldséð fyrirbæri og gömul hjátrú segir rosabauginn boðbera válegra tíðinda. Ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi, smellti af meðfylgjandi mynd um kl. 22 í gærkvöldi.
En hvað er rosabaugur samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands? „Ljósbaugar, venjulega nefndir rosabaugar, sjást stundum kringum tunglið, en oftar þó um sólina. Ástæða þess að slíkir baugar sjást sjaldnar um tunglið er sú að tunglið er svo miklu daufara en sólin. Birta baugs í kringum það verður því hlutfallslega minni. Þetta er líka skýringin á því að baugurinn sést helst þegar tungl er fullt þar sem tunglið er þá langtum bjartara en ella, tólf sinnum bjartara en þegar það er “hálft”.
Rosabaugar myndast við ljósbrot í ískristöllum í háskýjum, oftast blikuskýjum. Þessir baugar sjást því aðeins ef einhver skýjahula er á himni. Ískristallarnir eru sexstrendingar og þegar ljósið fer í gegnum þá breytir það um stefnu, en misjafnlega mikið eftir því hvernig það fellur á strendinginn. Algengasta stefnubreytingin er 22 gráður, og þess vegna myndast hringur í þeirri fjarlægð frá tungli eða sól á himninum. Þetta gerist þótt ískristallarnir snúi á alla mögulega vegu í skýjunum; við sjáum samsafn ljóss sem fer gegnum þá kristalla sem hafa mátulega stefnu“.