Róðurinn aðeins farinn að þyngjast í ráðningamálum
- Airport Associates skoðar að bjóða upp á rútuferðir frá höfuðborgarsvæðinu
„Næsta sumar reiknum við með að ráða inn á bilinu 250 til 300 sumarstarfsmenn og þá verður heildar starfsmannafjöldi fyrirtækisins um 450 til 500,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Airport Associates. „Síðasta sumar voru starfsmenn okkar rúmlega 300 en eru núna í vetur rétt um 200.“ Nokkur umræða hefur verið um að minnkandi atvinnuleysi og að stóraukin umferð um Keflavíkurflugvöll valdi því að almennt sé erfiðara fyrir fyrirtæki á Suðurnesjum að ráða fólk til vinnu. Sigþór segir að vel hafi gengið að ráða inn fyrir nýliðið sumar enda snúi ávallt stór hluti sumarstarfsmanna til baka. „Við finnum samt fyrir því að róðurinn er aðeins farinn að þyngjast og vitum að einhver fyrirtæki á Keflavíkurflugvelli hafi verið í vandræðum með að manna í allt sumar og í haust.“
Sigþór segir að allt útlit sé fyrir að heildaraukning á starfsmannaþörf allra fyrirtækja sem starfa á Keflavíkurflugvelli verði umfram það sem atvinnusvæðið á Suðurnesjum nái að brúa. „Fyrir næsta sumar þá komum við eflaust til með að ráða inn hluta af þessum starfsmannafjölda af höfuðborgarsvæðinu og bjóða þá upp á rútuferðir eða aðra valkosti til að laða að starfsfólk. All flestir sem í dag starfa hjá fyrirtækinu eru Suðurnesjafólk.“
Hluti þeirra sem hafa starfað hjá Airport Associates yfir sumartímann er skólafólk sem hættir störfum upp úr miðjum ágúst þegar sumatraffíkin stendur enn sem hæst á flugvellinum. Sigþór segir það þó hafa gengið ágætlega að manna eftir að skólafólkið hafi lokið störfum, því þá hafi all stór hópur starfsmanna að öllu jöfnu verið fastráðinn.
Airport Associates þjónustar stóran hluta þeirra flugfélaga sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, svo sem WOW air, easyJet, Air Berlin, Norwegian, Delta Airlines, Wizz Air, Bluebird Cargo, British Airways og Cargo Express svo einhver séu nefnd. Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess árið 1997 og þá sérstaklega ört undanfarin ár í takt við stóraukna umferð um Keflavíkurflugvöll. Starfsemin tekur til allrar flugtengdrar þjónustu svo sem hleðslu og afhleðslu flugvéla, ræstingar, farþegainnritunar, flugumsjónar auk þess sem fyrirtækið rekur umfangsmikla fraktmiðstöð og tollfrjálsa birgðageymslu. „Þessi öri vöxtur hjá okkur undanfarin ár hefur kallað á miklar fjárfestingar í afgreiðslutækjum og öðrum tækjabúnaði og að sama skapi erum við að fara í miklar byggingaframkvæmdir til að halda í við aukin umsvif.“ Sigþór segir að á næsta ári standi til að stækka fraktmiðstöð og skrifstofur fyrirtækisins um 4000 fermetra og verður starfsemin þá komin í samtals um 7000 fermetra.