Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Rockville brennur
Föstudagur 3. júní 2005 kl. 03:58

Rockville brennur

Talsverður eldur kom upp í einni af aðalbyggingum gömlu ratsjárstöðvarinnar á Miðnesheiði í nótt. Stöðin er í daglegu tali kölluð Rockville.

Slökkvilið Keflavíkurflugvallar var kallað út og sendi það fjölmennt lið á staðinn á þriðja tímanum í nótt. Þá var eldurinn í byggingu sem tengist kúluturnunum, sem eru helstu kennileiti gömlu stöðvarinnar.

Slökkvistarf stóð enn yfir nú rétt fyrir kl. 04 en eldurinn hafði ekki komist í aðrar byggingar á svæðinu. Slökkvilið Keflavíkurflugvallar hafði þá náð tökum á eldinum.

Blaðamenn Víkurfrétta voru stöðvaðir af herlögreglumönnum og ekki hleypt að brunavettvangi í nótt. Þeir vildu einnig banna ljósmyndurum að ganga um móann utan girðingar gömlu ratsjárstöðvarinnar, þannig að hægt væri að ná myndum af slökkvistarfi.

Það var ekki fyrr en blaðamenn settu sig í samband við lögregluna í Keflavík að herlögreglunni var ljóst að ljósmyndurum væri heimilt að ganga um móann. Ljósmyndurum var þó meinaður aðgangur að sjálfum brunavettvangi.

Engin starfsemi hefur verið í Rockville um hríð en þar var Byrgið síðast með sína starfsemi. Ekkert rafmagn er á svæðinu en það hefur verið vinsælt hjá ungmennum að heimsækja gömlu ratsjárstöðina, sem hefur gjörsamlega verið lögð í rúst eftir að Byrginu var gert að hafa sig þaðan á brott.

Ætla má að eldur hafi verið borinn að byggingunni.

Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024