RNB: Nýtir ekki forkaupsrétt í Fasteign
Reykjanesbær mun ekki nýta sér forkaupsrétt sinn í hluta af hlutafjáreign Glitnis í Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. Þetta var samþykkt með þremur atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum minnihlutans á bæjarráðsfundi í morgun.
Fulltrúar A-lista lögðu fram bókun vegna málsins en þeir telja að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar til að hægt sé að taka þá ákvörðun að falla frá forkaupsréttinum.. Þeir vísa í nýlegt álit frá ParX viðskiptaráðgjöf í þessu sambandi en þar hafi ekkert mat verið lagt á verðmæti EFF.
Vegna þess sem fram kemur í áliti ParX lagði A-listinn fram nokkrar spurningar á fundinum í morgun og óskaði eftir því að leitað yrði svara við þeim. Spurningarnar eru eftirfarandi:
1. Hefur stjórn Fasteignar samþykkt að Glitnir hf. legði lóð sína við Kirkjusand inn í Fasteign hf. til aukningar á hlutafjáreign sinni eins og getið er um í skýrslu ParX.
2. Hvenær var það samþykkt?
3. Ef það er staðreynd að Glitnir hf. hafi aukið hlut sinn í Fasteign hf. og greitt fyrir með lóð, hefur það þá ekki haft þau áhrif að auka arðgreiðslur til Glitnis hf. og skerða arðgreiðslur annarra hluthafa að sama skapi?
4. Þarf ekki að liggja fyrir samþykki annarra hluthafa þegar slík breyting er gerð á eignahlutföllum í félaginu eða getur stjórn ákveðið slíkt upp á sitt einsdæmi?
5. Samþykkir stjórn Fasteignar hf. að Reykjanesbær leggi lóðir inn í Fasteign hf. til þess að auka hlut sinn í Fasteign hf. eins og um er rætt í skýrslu ParX og á því gengi sem þar er nefnt?
6. Geta allir hluthafar ákveðið að leggja lóðir í þeirra eigu til Fasteignar hf. til þess að styrkja eignarstöðu sína í félaginu og þar með auka hlutdeild sína í arði sem greiddur er til eiganda?
7. Liggur fyrir einhver vitneskja um fyrirhugað lóðaframsal til Fasteignar hf?
8. Ef að sú leið sem ParX nefnir í áliti sínu sem leið 2 verður af einhverjum ástæðum ekki fær, hvaða skoðun hefur þá ParX á því að Reykjanesbær falli frá forkaupsrétti og minnki þar með áhrif sín í Fasteign hf.