Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

RNB: Leigugreiðslur til Fasteignar verða yfir 100 milljónir á mánuði
Fimmtudagur 19. mars 2009 kl. 14:47

RNB: Leigugreiðslur til Fasteignar verða yfir 100 milljónir á mánuði

-fasteignir og hlutafé að brenna upp í félaginu, segir Ólafur Thordersen.


Þær fjárhæðir sem Reykjanesbær greiðir Fasteign ehf í húsaleigu samsvara því að Reykjavíkurborg þyrfti að greiða 13 milljarða í húsaleigu á ári og ekkert eignast í staðinn. Útsvarsgreiðslur ríflega 3400 íbúa Reykjanesbæjar fara eingöngu í leigugreiðslur til Fasteignar.
Þetta var á meðal þess sem Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi A - lista hélt fram á bæjastjórnarfundi í Reykjanesbæ núna í vikunni.

Ólafur hafði lagt fram formlegar fyrirspurnir til bæjarstjóra þar sem hann m.a. spurði um hvað bæjarfélagið kæmi til með að greiða mánaðarlega í húsaleigu vegna Stapans og Hljómahallarinnar. Þá spurði Ólafur út í eignarhlut bæjarins í Fasteign og eiginfjárstöðu félagsins.


Fasteignir og hlutafé að brenna upp, segir Ólafur

„Svörin hafa verið borin saman við ársskýrslu Fasteignar og hún sýnir, hvað bænum viðkemur, hve mikil hætta er á að við verðum brátt eignalaus. Þær fasteignir og hlutafé sem við höfum lagt í félagið virðast vera að brenna upp og sú hagkvæmi sem meirihlutinn hefur talað um fyrir veru okkur í Fasteign var hreint ekki fyrir hendi.

Varðandi greidda húsaleigu og áætlanir um endanlegan kostnað vegna Stapa þá sér maður greinilega hversu máttlaus meirihlutinn er í þessu máli. Ljóst er af svarinu að sú húsaleiga sem bærinn greiðir nú þegar er kominn í hreint ótrúlegar fjárhæðir á mánuði, eða tæpar 85 milljónir og fer yfir 100 milljónir á mánuði þegar farið verður að greiða leiguna af Stapanum. Ef áætlanir standast er verið að tala hér um rúma 1,2 milljarða á ári og á þá eftir að bæta við ýmsum leigugreiðslum sem bærinn þarf að borga, út af t.d. Reykjaneshöllinni og fleiru,“ sagði Ólafur.

Hann sagði þetta samsvara því að Reykjavíkurborg þyrfti að greiða 13 milljarða í húsaleigu á ári og ekkert eignast í staðinn. „Ég held að eitthvað yrði sagt á þeim bænum ef svona væri farið með peninga skattborgaranna þar,“ sagði Ólafur en í máli hans kom fram að  útsvarsgreiðslur 3400 íbúa í Reykjanesbæ færu eingöngu í leigugreiðslur til Fasteignar.

Hann sagði lítið þýða fyrir meirihlutann að bera fyrir sig þeim rökum  hver kostnaðurinn væri ef  bæjarsjóður stæði sjálfur fyrir þessum framkvæmdum enda væri bæjarfélagið þá að eignast þær fasteignir sem greitt væri fyrir og taka mið af stöðu bæjarsjóðs í stað þess að standa sem „minnisvarðar um meirihlutann sem virðist hafa það eitt að markmiði að koma þessu bæjarfélagi á hvínandi hausinn, “ eins og Ólafur orðaði það.


Virði eignarhlutar aukist um helming, segir Böðvar

„Það er auðvitað ekkert nýtt að fulltúrar minnihlutans fari hér með ýmsar yfirlýsingar um rekstur Fasteignar sem eru algjörlega úr lausu lofti gripnar eða rangar. Ég fæ ekki séð á þeim svörum sem hér eru lögð fram og þeim upplýsingum sem lagðar voru fram í ársreikningi Fasteignar að eignarhlutur sá sem bærinn lagði í félagið sé að brenna upp, heldur þvert á móti,“ sagði Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi D-listans. Hann sagði virði þess  525 milljóna króna eignarhlutar sem bæjarfélagið lagði inn í félagið vera komið í um það bil einn milljarð miðað við stöðuna eins og hún var um áramót, sem ekki væri léleg ávöxtun frá árinu 2003.

„Það er rétt að minna á það að ef húsnæðið væri í eigu Reykjanesbæjar undir A-hluta bæjarsjóðs þá hefði Reykjanesbær verið að greiða vexti af lánum og utanhússviðhald af þeim eignum ásamt því að greiða fyrir rekstur og umsýslu þeirra fasteigna sem þá væru í okkar umsjón. Ég er ekkert viss um það að menn hefðu verið ánægðir með þá hækkun lána sem hefði orðið á síðasta ári ef við hefðum verið með allt þetta húsnæði inn í A-hluta bæjarsjóðs,“ sagði Böðvar.


Spurningar Ólafs Thordersen og svör bæjarstjóra má lesa um í fundargerð hér:









Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024