RNB: Aukið álag samhliða fólksfjölgun
-óskað eftir þremur nýjum stöðugildum. Tvö þeirra samþykkt.
Til stendur að bæta við tveimur stöðugildum hjá Fjölskyldu- og félagssviði Reykjanesbæjar á næstunni og hafa störfin verið auglýst laus til umsóknar. Fyrst og fremst er það aukin fólksfjölgun í sveitarfélaginu sem kallar á þessa aukningu starfsfólks nú. Farið var fram á þrjú stöðugildi en ákveðið var ráða í tvö að svo stöddu.
Tók viku að fá viðtal
„Eftir því sem sveitarfélagið stækkar eru fleiri sem banka upp á og þörfin fyrir þjónustuna eykst,“ segir Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri í samtali Víkurfréttir. Aðspurð segir Hjördís að ekki sé verið að bæta málaflokkum á Fjölskyldu- og félagsþjónustuna. Að vísu séu forvarnarmálin að mestu komin í hendur hennar án þess þó það eitt og sér kalli á meiri mannafla.
„Hins vegar var komin upp sú staða það það tók orðið viku að bíða eftir viðtali við félagsráðgjafa í stoðþjónustunni og það er ekki góð þjónusta. Málin eru oft mjög aðkallandi og alls ekki gott að fólk þurfi að bíða svona lengi.“ segir Hjördís.
Þjónusta við útlendinga
Hjördís segir að samfara fólksfjölguninni hafi íbúasamsetningin breyst í þá veru að yngra fólk með börn hafi í auknum mæli flutt til bæjarsins og það kalli á aukna þjónustu.
Samhliða þessum auknu stöðugildum hefur Fjölskyldu- og félagsþjónustan notið liðsinnis tveggja pólskra starfsmanna sem ráðnir voru til bæjarskrifstofunnar nýlega í ýmis verkefni sem snúa að þeim fjölda útlendinga sem sest hefur að í Reykjanesbæ en þeir eru í dag að nálgast það að vera 8% af íbúum bæjarins.
Hjördís segir verkefni þessara starfsmanna aðallega felast í því að kortleggja þessi mál, finna hvernig best er að mæta þessari miklu fjölgun útlendinga og hvar snertifletirnir eru við nýbúana þannig að þeir geti sem best fótað sig í nýju samfélagi.
Mikil aukning barnaverndartilkynninga
Mikil aukning varð milli ára á barnaverndartilkynningum sem komu inn á borð Fjölskyldu og félagsþjónustunnar. Fjöldi tilkynninga var 578 á síðasta ári en var 381 árið á undan. Það hefur því auga leið að álagið hefur aukist á starfsfólk félagsþjónustunnar.
Hjördís segir að þessa aukningu tilkynninga megi einkum skýra með fjölda lögregluskýrslna. Það hafi ekki endilega haft í för með sér aukningu í fjölda mála sem eru í vinnslu því breytt skilgreining á því hvað telst mál breyti tölunum talsvert. Samkvæmt nýju vinnufyrirkomulagi sé flokkun mála mun ítarlegri en áður.
Um leið og könnun er gerð á tilkynningu falli hún undir þá skilgreiningu að vera mál. Lögregluskýrslur t.d. flokkast sem mál en ekki er þar með sagt að eitthvað mjög alvarlegt sé á bakvið hana, þó málið sé að sjálfsögðu kannað.
Punktar um umfang Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar:
-411 fengu húsaleigubætur í janúar 2005. Í október voru þeir orðnir 532.
-Mánaðarlega fá 200 – 270 manns umönnunargreiðslur
-Hælisleitendur sem dvelja samtímis í skjóli FF voru á bilinu 31 – 36 frá júlí til ársloka.
- 220 barnaverndarmál voru skráð til vinnslu hjá barnavernd Reykjanesbæjar fyrstu níu mánuði ársins 2007 og 25 fósturmál. 30% málanna eru vegna barna sem flutt hafa til bæjarins síðustu tvö ár. 15% mála eru vegn mála barna af erlendum uppruna.
-Álag á barnaverndarstarfsmenn hefur aukist mikið s.l. ár. Nú eru um 55 barnaverndarmál skráð á hvern barnaverndarstarfsmann.
-54 nýir einstaklingar og/eða hjón sóttu tíma hjá félagsráðgjafa á fyrstu níu mánuði árins, ýmist til að leita sér aðstoðar varðandi fjárhagsaðstoð og/eða almenna félagslega ráðgjöf.
Mynd: Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri.