Tjöldum ekki til einnar nætur

Það hefur færst mjög í vöxt að ferðafólk nýti sér tjaldstæði á Suðurnesjum til lengri eða skemmri dvalar. Grindvíkingar hafa byggt upp glæsilegt tjaldstæði með góðri þjónustu sem er mikið notað af bæði innlendum sem erlendum ferðalöngum. Í Sandgerði er einnig verið að byggja upp tjaldstæði. Þar er góð aðstaða í þjónustuhúsi, rafmagnstengingar og aðstaða til að losa húsbíla. Á Garðskaga er ágætis aðstaða sem er ókeypis fyrir ferðalanga og nýtt tjaldstæði  í sannkölluðum listaverkagarði er í uppbyggingu við íþróttamiðstöðina í Garði. Þá hafa Vogamenn komið upp aðstöðu fyrir tjaldferðalanga.

Í Reykjanesbæ er eina tjaldstæðið rekið af ferðaþjónustufyrirtæki við Aðalgötu neðan Reykjanesbrautar. Þetta er hins vegar síðasta sumarið sem fyrirtækið ætlar að reka tjaldstæði og þar með verður ekkert tjaldstæði í boði í þessu 14.000 manna sveitarfélagi. Bæjaryfirvöld skoða nú möguleika á að setja upp tjaldstæði og nefna gamlan knattspyrnuvöll á Iðavöllum í því sambandi.

Eftir að frétt um málið birtist á vef Víkurfrétta barst blaðinu grein frá Hannesi Friðrikssyni sem benti áhugaverða lausn á tjaldstæðamálinu. Hann kastar fram þeirri tillögu að staðsetja nýtt tjaldstæði inni á milli skjólgóðra garða við Víkingaheima og landnámsdýragarðinn. Þar hefur á síðustu árum verið unnið að uppbyggingu ferðaþjónustu og þar gæti passað vel að útbúa flöt fyrir tjöld og stæði fyrir húsbíla.

Á ferðalögum mínum um landið má víða sjá vel útbúin tjaldstæði með góðri aðstöðu fyrir sífellt stærri ferðavagna og húsbíla landsmanna. Það skiptir nefnilega máli hvaða aðstaða er í boði svo fólk setji sig niður í eina nótt eða fleiri. Í Reykjanesbæ verður að vera til staðar aðstaða fyrir ferðaglaða landsmenn og erlenda ferðalanga. Hugmyndin um að útbúa tjaldstæði á svæðinu við Víkingaheima er eitthvað sem bæjaryfirvöld ættu að skoða.