Sterk viðbrögð við brottnámi steindra glugga

Við sögðum frá því í síðasta blaði að sóknarnefnd Keflavíkurkirkju hefur ákveðið að ráðast í mikið viðhald á kirkjunni sem á að vera lokið þegar 100 ára afmæli Keflavíkurkirkju rennur upp árið 2015. Framkvæmdir við kirkjuna verða í nokkrum áföngum en í þeim á að færa útlit kirkjunnar sem næst því sem það var þegar kirkjan var vígð 1915. Panelklæðning sem er á veggjum kirkjunnar verður fjarlægð, skipt um gólfefni, kirkjubekkjum breytt og upprunalegur predikunarstóll verður endurnýjaður og settur upp að nýju í kirkjunni ásamt ýmsu öðru sem ekki verður talið upp hér.

Í umfjöllun Víkurfrétta í síðustu viku var þó eitt atriði sem vakið hefur sterk viðbrögð bæjarbúa og þá helst þeirra sem eldri eru. Það er sú ákvörðun sóknarnefndarinnar að taka niður alla steinda glugga í kirkjuskipinu og setja í þeirra stað venjulegt gler í stíl við það sem var í vígslu kirkjunnar. Sagt var frá því að steindu gluggunum verði komið í geymslu og jafnframt nefndur sá möguleiki að koma gluggunum upp til sýnis.

Það verður að segjast að sá sem þetta skrifar hefur fengið sterk viðbrögð við ákvörðuninni að taka niður gluggana. Þeir sem sett hafa sig í samband við blaðið eru mjög mótfallnir því og nefna að það hafi verið mikið átak á sínum tíma að kaupa steindu gluggana og setja þá upp. Þeir sem eru harðastir á móti ákvörðuninni spyrja hvar sóknarnefndin sæki leyfi sitt til að taka gluggana niður.

Í samtali mínu við kirkjunnar fólk kom fram að nauðsynlegt er að taka gluggana niður til að sinna viðhaldi. Það var því vilji til þess að setja glært gler í staðinn og hafa þannig a.m.k. fram yfir 100 ára vígsluafmælið. Það mætti svo skoða í framhaldinu hvort steinda glerið yrði sett upp aftur.

Það er því hugsanlega aðeins til fárra ára sem sólin fær að skína inn um glært gler eins og hún gerði í Keflavík þegar kirkjan var vígð. Verði raunin sú að fólk kunni betur við steinda glerið verður skoðað að setja það upp aftur.

Hilmar Bragi Bárðarson