Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ritstjórnarpistill: Loforð ríkisstjórnarinnar
Fimmtudagur 20. janúar 2011 kl. 11:07

Ritstjórnarpistill: Loforð ríkisstjórnarinnar

Það er ekki hægt að hrósa ríkisstjórn Íslands fyrir framgöngu hennar í málefnum tengdum Suðurnesjum. Á fundi hennar í Víkingaheimum í Reykjanesbæ í nóvember sl. var tilkynnt um mörg mál sem tengdust Suðurnesjum og ættu að hjálpa til í slæmu atvinnuástandi. Tilkynnt yrði um niðurstöðu í mörgum málum 1. febrúar. Kannski koma svör fyrir þann tíma. Lítið virðist þó hafa gerst.


Svar innanríkisráðherra um hvernig málin stæðu varðandi flutning Landhelgisgæslunnar eru mikil vonbrigði. Frá 9. nóv. hefur lítið verið gert, alla vega voru svörin á þann veg. Vinna hafin en gengi hægt. Eitthvað á þá leið voru skilaboðin. Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi sagði á bæjarstjórnarfundi í fyrradag að það væru til margar skýrslur um flutning Gæslunnar og hagkvæmni þess. Ráðherra hefði bara ekki áhuga á því. Sama virðist vera uppi á teningnum í menntunarmálum en það var talað um að það væri mikilvægt að styðja við menntun á svæðinu. Steingrímur J. hefur jú sagt að hluti vanda Suðurnesjamanna væri lágt menntunarstig. Samt gerist sama og ekki neitt. Síðasta haust þurfti að vísa frá hátt í 200 nemendum frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og aftur miklum fjölda núna fyrir vorönn 2011. Eina alvöru málið sem hefur klárast er varðandi gagnaver og fyrir það ber jú að þakka. Samfylkingaroddvitinn Friðjón Einarsson tók undir gagnrýni Böðvars á ríkisstjórninni á bæjarstjórnarfundinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Eins og fram kemur á forsíðu er staðan í atvinnumálum á svæðinu mjög slæm. Iðnaðarmenn eru ýmist að verða, eða eru orðnir verkefnalausir.


Vonandi tekst Suðurnesjamönnum að þreyja þorrann. Það er búið að hreinsa húsið sem á að hýsa herminjasafnið, skipa starfshóp um atvinnumál, búið að opna skrifstofu umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum, ráða tvo lögfræðinga og verkefnissjóra í velferðarmálum. Og jú, búið að leggja drög að einu til þremur störfum í mennta- og menningarmálum eins og fram kemur í grein á vf.is frá Ingu Sigrúnu Atladóttur, forseta bæjarstjórnar Voga á Vatnsleysuströnd. Ja, hérna, þetta eru hátt í fimm störf. Á Suðurnesjum eru um 1600 manns atvinnulausir.

Umrædd Inga gagnrýndi Víkurfréttir fyrir að vera með áróðurskenndan fréttaflutning af fundi í síðustu viku sem skýrði frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar. VF sagði að Suðurnesjamenn hafi verið óánægðir með stöðu mála. Forseti bæjarstjórnar Voga er það greinilega ekki. Sagði allt á réttri leið og að Suðurnesjamenn ættu að standa saman um að gera sem mest úr þeim aðgerðum sem á að fara í á svæðinu.
Mér er spurn? Býr hún ekki á Suðurnesjum?


Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta.