Risatankur valt af flutningavagni í Grindavík
Risatankurinn sem flytja átti frá Grindavík til Helguvíkur í kvöld og nótt fór ekki langt. Hann valt af flutningavagni sínum með miklum látum nú í kvöld. Tankurinn sem vegur rétt tæp 90 tonn stöðvaðist á gámi við verkstæðishús á hafnarsvæðinu. Hefði tankurinn oltið í hina áttina hefði hann allt eins getað hafnað á íbúðarhúsi.
Fjölmörg vitni urðu að slysinu og videomyndir munu hafa náðst af því þegar tankurinn valt af vagningum. Sjónarvottur sem Víkurfréttir ræddu við sagði að minnstu hefði mátt muna að flutningabíllinn og tengivagninn hefðu oltið einnig, en festingar hafi gefið sig áður. Tankurinn, sem er 27 metrar á hæð, var lagður á hliðina á flutningavagninn í dag með þremur öflugum krönum. Í kvöld og nótt átti síðan að flytja tankinn eftir krókaleiðum til Helguvíkur. Tankurinn komst hins vegar ekki nema um 2-300 metra og valt af vagninum í litlum halla.
Sérfræðingar hafa verið að ráða ráðum sínum frá því slysið varð og sú spurning hefur vaknað hvort það sé í raun gerlegt að flytja svona risatank landleiðina. Tankurinn er um 12 metra hár þegar hann liggur á flutningavagninum. Það er eins og að flytja 3-4 hæða hús.
Slysstaðurinn í Grindavík hefur verið girtur af með lögregluborðum en rannsóknaraðilar hafa verið kallaðir til. Hvað verður um tankinn eftir þetta slys kemur í ljós í birtingu á morgun. Síðasti tankur sem tekinn var við gömlu fiskimjölsverksmiðjuna í Grindavík sökk skömmu eftir að hann var kominn úr innsiglingunni í Grindavík. Í kvöld valt risavaxinn tankurinn af flutningavagni sínum og ennþá bíður samskonar tankur flutnings.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi Bárðarson á vettvangi slyssins nú í kvöld.