Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 4. október 2000 kl. 15:37

Risarauðspretta úr Bergvík

Jón Björn Vilhjálmsson, skipsstjóri og hans menn á Eyvindi KE 99 fengu vænan afla í dragnótina fyrir nokkrum dögum í Bergvíkinni.Upp úr sjó kom þessi væna rauðspretta sem mældist 75 sm. að lengd en stærsta spretta sem hefur komið upp úr sjó hér á landi er 82 sm. „Svo er hún þung og þykk“, sagði Jón Björn þegar tíðindamaður Víkurfrétta mætti á bryggjuna. Við þyngdarmælingu reyndist hún rúm 6 kg. að þyngd. Það er tíu sinnum stærra en meðalþyngd á rauðsprettu. Vænar sprettur eru 600-800 grömm. En það var fleira í aflanum en risakoli. Rétt utan við Bergvíkina sem kylfingar í Golfklúbbi Suðurnesja þekkja vel en frægasta golfhola landsins heitir einmitt eftir henni enda staðsett við hana, kom hvalbein og ankeri í dragnótina. Þetta var allt tekið í land enda á þetta að vera til skrauts og sýnis við nýtt glæsilegt húsnæði Fiskvals sem tekið verður formlega í notkun næsta laugardag. Það eru ár og dagar síðan það opnaði nýtt fiskverkunarhús í Keflavík. Aðspurður um það sagði Sæmundur Hinriksson, forstjóri og eigandi að miklar breytingar væru á frágangi svona húss í dag frá því sem var í gamla daga. „Það er litið á þetta sem matvælaframleiðslu og kröfurnar eru eftir því“, en Sæmundur hefur í all mörg ár flakað flatfisk til útflutnings í flugi. Hann eignaðist nýlega Eyvind KE og vinur hans Jón Björn er með bátinn á dragnót. Þeir félagar eru báðir miklir golfarar og aðspurður um þetta sérstaka fiskirí í Bergvíkinni nefndi Jón Björn einn hlut sem kom einnig í veiðarfærið í þessum túr. Það var golfbolti. „Það eru margir boltar á hafsbotni í Bergvíkinni enda slá þúsundir manna þarna yfir á hverju ári“, sagði Jón Björn sæll og glaður með fjölbreyttan afla.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024