Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

  • Risaframkvæmdir framundan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar
  • Risaframkvæmdir framundan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar
    Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia. VF-myndir/pket.
Þriðjudagur 13. október 2015 kl. 18:19

Risaframkvæmdir framundan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar

-Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar „Masterplan“ sýnir gríðarlega mikla uppbyggingu á næstu árum.



„Við lögðum af stað í þessa vinnu með það í huga að það verður að taka frumkvæði – hugsa til framtíðar. Framtíð Keflavíkurflugvallar er björt, hann er á hentugu svæði og möguleikar til uppbyggingar eru góðir, en það verður að nýta þá. Við verðum að horfa til framtíðar, til lengri tíma en næsta árs og svo næsta og þannig koll af kolli. Taka frumkvæði. Hugsa stórt, en þó þannig að sé í samræmi við það sem von er á,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia en fyrirtækið kynnti þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til ársins 2040 í Hljómahöllinni í dag.

Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar eða svokallað Masterplan, var fyrst kynnt í vor en síðan hefur víðtækt samráð átt sér stað við hagsmunaaðila sem skilaði sér í þeirri áætlun sem kynnt var.
Keflavíkurflugvöllur mun geta tekið á móti allt að 14 milljónum farþega á hverju ári þegar framkvæmdum við Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar verður lokið, sé miðað við sömu dreifingu álags og er nú. Dreifist álag með jafnari hætti yfir sólahringinn en nú er og getur flugvöllurinn þá tekið á móti allt að 25 milljónum farþega. Samkvæmt áætlunum gætu farþegarnir verið 14 milljónir árið 2040, en verði það fyrr mun Keflavíkurflugvöllur engu að síður vera í stakk búinn til að taka á móti umræddum fjölda.

„Mér finnst standa mest upp úr að vera komin með leiðarljós, einhverja línu til að fara eftir til framtíðar. Undanfarin ár höfum verið verið að stækka stöðina hér og þar í frekar litlum mæli en nú er komin framtíðarlína. Þetta eru risa framkvæmdir framundan en verða unnar í áföngum. Stærð þeirra af því hversu mikil og hröð farþegaaukningin verður. Þó er ljóst að fyrsti áfanginn verður stór vegna mikillar uppsafnaðar þarfar til afkastaaukningar. Ekki er gert ráð fyrir að íslenska ríkið sem eigandi Isavia þurfi að leggja fjármuni til framkvæmdanna, þar sem möguleikar Isavia til fjármögnunar eru góðir og einnig eru til staðar tækifæri sem tengjast aðkomu annarra að Isavia. Við áætlum að framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjist á árinu 2017 með fyrstu skóflustungu og næsta ár fari í hönnun og undirbúning. Gert ráð fyrir því að um eitt þúsund manns muni starfa við fyrsta áfanga í stækkun flugstöðvarinnar.“

Björn sagði að til þess að þessar áætlanir geti orðið að veruleika og ferðaþjónustan nái að skapa þessar gjaldeyristekjur þurfi að vera aðstaða til að koma þeim til landsins. „Sú staða má ekki skapast að Keflavíkurflugvöllur verði flöskuháls í þeirri uppbyggingu sem mun skila svo miklu til þjóðarbúsins. Því það er þjóðarbúið allt sem liggur undir og stækkun Keflavíkurflugvallar er því mál okkar allra, enda koma um 97% erlendra ferðamanna sem sækja landið heim í gegnum Keflavíkurflugvöll.

Það er heldur ekki ráð nema í tíma sé tekið, allar spár um fjölgun farþega hafa reynst of varfærnar og útlit er fyrir að strax á næsta ári mun farþegafjöldi ná 6 milljónum, nokkuð sem var talið að næðist ekki fyrr en árið 2018,“ sagði Björn Óli.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Frá kynningunni í Hljómahöllinni.