Risaflugvél í hjartastoppi í Keflavík
– tilkynnt um hjartastopp farþega í stærstu farþegaþotu heims
Airbus A380 frá Lufthansa er nú á Keflavíkurflugvelli eftir að farþegi um borð veiktist. Tilkynnt var um hjartastopp en svo reyndist ekki vera þegar sjúkraflutningamenn frá Brunavörnum Suðurnesja komu um borð í vélina á austursvæði Keflavíkurflugvallar.
Vélin, sem er stærsta farþegaþota heims, lenti á Keflavíkurflugvelli kl. 12:48. Þotan var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til San Francisco í Bandaríkjunum.
Tilkynnt var um veikindin þegar vélin var stödd suður af landinu og þotunni þegar snúið til Keflavíkurflugvallar.
Tveir sjúkrabílar voru sendir á vettvang en það er ávallt gert þegar tekist er á við hjartasjúkdóma og mikið liggur við.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi nú áðan af vélinni á Keflavíkurflugvelli.
Sjúkrabílar og slökkvibíll við A380 þotuna á Keflavíkurflugvelli nú áðan.
A380 er engin smásmíði. Farþegarými á tveimur hæðum og geta flutt allt að 800 farþega.
Sjúkrabílarnir tveir fara af vettvangi á Keflavíkurflugvelli.
Airbus A380 frá Lufthansa og Airbus A321 frá Wowair á Keflavíkurflugvelli nú áðan.