Ríkisvaldið ráðist í aðgerðir til að auðga atvinnulíf á Suðurnesjum
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hvetur ríkisvaldið til að ráðast í aðgerðir til að auðga atvinnulíf á Suðurnesjum. Þetta kemur fram í ályktun sem lögð var fram á 45. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem fram fór í Reykjanesbæ 1. og 2. október síðastliðinn.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er það mesta á landinu eða 9,7% þegar landsmeðaltal er 5,5%. Svæðið er mjög háð Keflavíkurflugvelli og það má sjá í þróun efnahagsmála á Suðurnesjum. Árið 2012 voru ferðaþjónusta, verslun, veitingar og samgöngur um 28% af umsvifum atvinnugreina á Suðurnesjum en árið 2017 var hlutfallið komið í 43%. Atvinnutekjur af ferðaþjónustu á Suðurnesjum voru 37,7% árið 2018 skv. upplýsingum frá Byggðastofnun en landsmeðaltalið var 17,5%.
Fjölga þarf atvinnugreinum á Suðurnesjum en Suðurnesin hafa fundið vel fyrir einsleitu atvinnulífi vegna afleiðinga af völdum Covid. Styðja þarf áfram við uppbyggingu skipa- og flugklasa. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa áhuga á því að vera leiðandi í innleiðingu hringrásarhagkerfisins en Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur unnið frumskýrslu um innleiðingu hringrásarhagkerfisins og uppbyggingu Sorporkustöðvar í Helguvík, þær skýrslur benda til þess að Suðurnesin geti búið þessum verkefnum góða umgjörð.
Á næstu árum má gera ráð fyrir miklum vexti í fiskeldi á landi. Sjávarútvegurinn hefur verið ein af grunnstoðum atvinnulífs á Suðurnesjum. Það er mikilvægt að styrkja tengsl atvinnulífs og menntunar. Aðalfundur SSS leggur til að ríkið styrki, til framtíðar og með myndarlegum hætti, starfsgrundvöll Fisktækniskóla Íslands með verulegri aukningu fjárveitinga skólans til kennslu og þróunar og vinni jafnframt með sveitarfélögum á Suðurnesjum að því að skapa skólanum þá umgjörð sem menntun í einni af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar sæmir.
Sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum leggur til að ríkisvaldið horfi til Suðurnesja þegar kemur að því að fjölga eða flytja ríkisstörf út á land. Bent er á að Njarðvíkurhöfn hentar vel sem heimahöfn skipadeildar Landhelgisgæslu Íslands.
Reykjanesið er lífæð landsins og þar eru fjölmörg atvinnuskapandi verkefni sem hægt er að ráðast í og mikilvægt að ríkið og sveitarfélög rói í sömu átt.