Ríkisvaldið getur ekki bara yppt öxlum
- segir þingmaður um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar.
„Ég var fyrst og fremst ánægð með að umræðan um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar kæmist á dagskrá þingsins. Ég lagði inn beiðni um hana 2. nóvember í fyrra þannig að biðin tók þrjá og hálfan mánuð,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar blaðamaður hafði samband við hana.
Litið framhjá aðvörunum eftirlitsnefndar
Eins og Ólöf Nordal innanríkisráðherra og fleiri komu inn á í umræðunni þá gerði fyrrverandi meiri hluti bæjarstjórnar ráð fyrir tekjum af verkefnum sem aldrei urðu að veruleika. „Það er í raun ótrúlegt að mögulegt hafi verið að líta framhjá aðvörunum eftirlitsnefndar sveitarfélaga og að íbúar hafi verið blekktir með óraunhæfum fjárhagsáætlunum. En svona var það og nú þarf að glíma við vandann sem safnast hefur upp. Þó að ábyrgðin á vandanum og lausn hans sé hjá sveitarfélaginu þá finnst mér að ríkisvaldið geti ekki bara yppt öxlum heldur verði einnig að leggjast á árarnar,“ segir Oddný.
Landshlutinn í heild veikist
Hún vona að umræðan hafi þau áhrif að fjárveitingarvaldið sýni stöðunni aukinn skilning og átti sig á að þegar stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum glímir við slíkan fjárhagsvanda þá veikist landshlutinn í heild. „Ég vil að ríkisvaldið komi að málum í Reykjanesbæ eins og gert hefur verið á ýmsum öðrum stöðum á landinu. Ég nefni dæmi um hafnarframkvæmdir við Helguvíkurhöfn. Allir þingmenn Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna greiddu atkvæði á móti tillögu stjórnarandstöðunnar um 180 milljónkróna ríkisframlag til framkvæmdanna á árinu 2015. Í sömu atkvæðagreiðslu samþykktu þeir hins vegar fjárframlag til framkvæmda við höfnina á Bíldudal vegna atvinnuuppbyggingar þar. Ég vona að með aukinni umræðu um stöðu mála hér muni ríkisvaldið ekki geta litið framhjá því að hingað þarf að beina fjármunum til uppbyggingar. Ég er ekki að tala um einhverja ölmusu heldur bara sambærilegan stuðning og önnur landssvæði hafa fengið. Ég vil líka að tekin verði til endurskoðunar undanþága sem ríkið er með vegna greiðslu fasteignaskatta af tómum fasteignum á Ásbrú. Reykjanesbær er ekki í nokkrum færum til að veita ríkissjóði 90 milljón krónu afslátt á ári. Ég mun fylgja því eftir að þetta verði endurskoðað.“
Lagði til fimm sérfræðinga nefnd
Oddný lagði fram þingsályktunartillögu 13. nóvember síðastliðinn þess efnis að nefnd fimm sérfræðinga úr fimm ráðuneytum yrði falið í samráði við sveitarfélögin á Suðurnesjum að vinna tímasetta áætlun um eflingu atvinnulífs og samfélags á Suðurnesjum. Slóðin á tillöguna er hér. „Innanríkisráðherra benti réttilega á í umræðunni um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar að málið varðaði fleiri ráðuneyti en hennar. Ég spurði hana hvort hún myndi leggja efni þingsályktunartillögu minnar fram í ríkisstjórn þar sem tillagan sé einmitt um samstarf ráðuneyta um málið. Því miður svaraði ráðherrann ekki þeirri spurningu minni,“ segir Oddný.
Átta ár ekki langur tími í sögu bæjarfélags
Oddný segir að hún viti að íbúar Reykjanesbæjar og starfsmenn hans þurfa að taka verulega á til að rétta við fjárhagsstöðu bæjarins og gera það þannig að þjónusta við íbúa skerðist sem minnst og lögbundum verkefnum verði sinnt eftir sem áður. „Ég óska þeim alls hins besta og að bæjarfulltrúar hafi seiglu og úthald til að takast á við stöðuna því þeir munu mæta mótlæti. Átta ár eru ekki langur tími í sögu bæjarfélags en það er einmitt tíminn sem áætlað er að bæjaryfirvöld þurfi til að ná markmiðunum.“