Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ríkisstjórnin vill gott samstarf við Suðurnesjamenn
Fimmtudagur 28. október 2010 kl. 21:33

Ríkisstjórnin vill gott samstarf við Suðurnesjamenn


„Málefni Suðurnesjamanna eiga ekki að vera rædd með karpi eða í umkenningarleik. Ríkisstjórnin vill að sjálfsögðu eiga gott samstarf við heimamenn um þau verkefni sem eru í undirbúningi,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á opnum borgarafundi í Stapa í dag sem Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi stóðu að. Heimamenn voru mis ánægðir með svör ráðamanna á fundinum og fundarstjóri sagði í lokin að hann væri hræddur um að sverð yrðu ekki slíðruð heldur munduð.


„Það þarf að huga að ýmsum þáttum á Suðurnesjum, m.a. menntun, lágum meðallaunum og miklu atvinnuleysi fólks á aldrinum 24-29 ára. Það er ljóst að svæðið hefur orðið fyrir áföllum. Herinn fór og Sparisjóðurinn fór yfir um en það er ekki rétt að ríkið hafi staðið í vegi fyrir verkefnum á svæðinu,“ sagði Steingrímur m.a. á fundinum. Hann sagðist m.a. hafa sent meðmælabréf vegna lánaumsókna aðila sem tengjast nýjum verkefnum á svæðinu, svokölluð ástarbréf. Sagði það ekki óalgengt þar sem ríkisvaldið leggur fram gott orð með ákveðnum verkefnum án þess að um ríkisábyrgð væri að ræða. Ráðherra sagði að ríkisvaldið stæði ekki í vegi fyrir framgangi álvers í Helguvík. Það hefði verið samkomulag um það í meirihlutasamningi við gerð ríkisstjórnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Steingrímur svaraði spurningum sem lagðar voru fram á fundinum og annarra úr sal. Hann sagði að stigið yrði varlega til jarðar í málefnum Fríhafnarinnar sem margir Suðurnesjamenn hafa áhyggjur af vegna þess að í fjárlögum er gert ráð fyrir því að reksturinn í Leifsstöð skili 1,2 milljarði króna í ríkissjóð. Steingrímur sagði að niðurskurður í málefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja væri í skoðun og ekki væri ólíklegt að farið yrði hægar í sakirnar þó svo að ekki yrði hjá því komist að skera niður. Hann kom inn á málefni Sparisjóðsins í Keflavík, gagnavers, Keilis á Ásbrú og mörg önnur. Steingrímur sagði góðar fréttir vera í ferðaþjónustu, m.a. hjá flugreksraraðilum og það væri gott fyrir Suðurnesin.

Auk Steingríms flutti Kristján Möller, formaður iðnaðarnefndar ávarp og svaraði spurningum. Hann sagði margar hindranir hafa verið í veginum í uppbyggingu álvers en þær væru allar yfirstíganlegar. Svæðið hefði mikla möguleika í atvinnumálum og margar jákvæðar fréttir væru væntanlegar. „Ekkert annað en aukinn hagvöxtur kemur okkur út úr þessari kreppu, meiri atvinna,“ sagði Kristján.

Allar margar spurningar komu úr sal og frá bæjarstjórum Suðurnesjamanna. Ásmundur Friðiksson, bæjarstjóri í Garði sagðist hafa átt von á betri ræðu frá hinum mikla ræðuskörungi, Steingrími J. „Hann kemur hingað og segir ekki neitt af viti, alveg eins og kelling“. Steingrímur undraðist málflutning Ásmundar og sagði hann ekki skapa störf. Nú væri mikilvægt að slíðra sverðin og vinna saman.

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fjölmenntu á fundinn og héldu síðan uppi „búsáhaldastemmningu“ fyrir utan Stapann eftir fundinn með því að berja í „hlandskálar“ af sjúkrahúsinu um leið og fjármálaráðherra gekk út í bíl.