Ríkisstjórnin komi sér að verki
Ríkisstjórnin verður að koma sér til verka, það dugir ekki að punta hana upp. Annars er hún gagnslaus og þá verður hún að fara frá. Þetta sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks á Alþingi í dag eftir að hafa upplýst um það að meðal annars IBM sé hætt við að koma með verkefni inn í gagnver Verne holding á Suðurnesjum. Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.
Ástæðan sé tafir í íslenskri stjórnsýslu við að leysa tæknileg vandamál sem tengist virðisaukaskatti. Sagði þingmaðurinn þetta enn eitt áfallið fyrir íbúa á Suðurnesjum og sakaði ríkisstjórnina um atvinnusköðun. Skúli Helgason formaður iðnaðarnefndar tók undir með þingmanninum og skoraði á fjármálaráðuneytið að leysa málið hið fyrsta.