Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ríkisendurskoðun skoðar fjárreiður Leifsstöðvar
Föstudagur 3. janúar 2003 kl. 14:15

Ríkisendurskoðun skoðar fjárreiður Leifsstöðvar

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var greint frá því að Ríkisendurskoðun hafi ákveðið að skoða fjárreiður hlutafélagsins Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sem er í eigu ríkisins, í kjölfar fréttar Útvarpsins af miljónagreiðslum til tveggja stjórnarmanna. Stjórnarmennirnir fengu greiðslurnar fyrir ráðgjöf til Flugstöðvarinnar, gegnum fyrirtæki sín, jafnhliða því sem þeir þáðu greiðslur fyrir stjórnarsetu í félaginu. Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi segir að Ríkisendurskoðun ætli að skoða málið. Almennt sé þetta mjög óheppilegt fyrirkomulag og menn eigi að forðast í lengstu lög að vera beggja vegna borðsins.
 
Flugstöð Leifs Eiríkssonar gaf forstjóranum utanlandsferð í golf í fimmtugsafmælisgjöf. Höskuldur Ásgeirsson forstjóri Flugstöðvarinnar, sem er ráðinn af stjórninni, sagði i gær að hann hefði átt frumkvæði að því að stjórnarmenn voru ráðnir til ráðgjafarstarfa en vildi ekki gefa upp hvað greiðslur til þeirra væru háar. Viðskipti við einstaka menn væru trúnaðarmál. Hann staðfesti að hann hefði þegið utanlandsferð að gjöf á afmælinu sínu en vísaði því máli alfarið til stjórnarinnar.
 
Báðir stjórnarmennirnir sem um ræðir, reka ráðgjafafyrirtæki. Annar þeirra,  Stefán Þórarinsson hefur haft umsjón með því að bjóða út aðstöðu í flugstöðinni en hinn, Sigurður Garðarsson hefur sinnt margvíslegum verkefnum.
 
Stefán Þórarinsson segir eðlilega nútímastjórnunarhætti, að stjórnarmenn komi að rekstri félaga með þessum hætti. Hann vildi ekki gefa upp hvað hann hefði fengið greitt fyrir þessa ráðgjöf og sagði það ekki mál fjölmiðla.
 
Flugstöð Leifs Eiríkssonar var breytt í hlutafélag árið 2000 en félagið er þó að öllu leyti í eigu ríkisins. Stefán Þórarinsson segir að í stjórninni séu menn úr viðskiptalífinu og þóknun fyrir stjórnarstörf sé lág, rúmlega 60.000 krónur á mánuði, fyrir óbreytta stjórnarmenn, og eðlilegt að menn fái greitt sérstaklega fyrir önnur störf sem þeir inni af hendi fyrir félagið.
 
Sigurður Garðarsson verkfræðingur sem einnig hefur selt hlutafélaginu Leifi Eiríkssyni ráðgjöf jafnhliða stjórnarsetu, hætti í stjórninni í desember. Hann segist hafa gert stjórninni grein fyrir því í fyrra að hann teldi að hann vildi leggja meiri áherslu á að vinna fyrir félagið en stjórnarstörf. Hann vildi ekki gefa upp hvað greiðslur fyrir ráðgjöfina hefðu verið háar á þeim tíma sem hann sat í stjórn. Það væri trúnaðarmál. Mestu skipti að allt þetta mál hefði verið gert með fullu samþykki og í umboði stjórnarinnar, segir á fréttavef rúv.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024