Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

  • Ríkið greiddi ekki krónu í flugstöðinni
  • Ríkið greiddi ekki krónu í flugstöðinni
    Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia sagði í ræðu sinni að strax eftir hrun hefði ekki verið boðið upp á vín, einungis appelsín, í uppákomum í flugstöðinni, menn hafi verið að jafna sig á hruninu og sparnaður í hávegum hafður. Björn skálaði af því tilefni í appelsíni fyrir 30 ára afmælinu.
Sunnudagur 14. maí 2017 kl. 07:00

Ríkið greiddi ekki krónu í flugstöðinni

Vildum vera í fremstu röð á öllum sviðum í tæknivæddasta húsi landsins þegar flugstöðin var vígð 1987

„Smíði flugstöðvarinnar þótti bera vott um mikinn stórhug og staðfesta að Íslendingar vildu vera í fremstu röð á öllum sviðum, enda húsið tæknivæddasta bygging sem reist hafði verið í landinu. Flugstöðin hefur verið í sífelldri endurnýjun og hátt í fjórfaldast að stærð á síðust tveimur áratugum,“ sagði Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia á þrjátíu ára vígsluafmæli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Björn sem var fyrsti forstjóri Isavia en forverar hans voru flugvallarstjórar, sagði að Keflavíkurflugvöllur hafi verið gerður og rekinn af Bandaríkjaher og við uppbyggingu varnarliðsins á sjötta áratug síðustu aldar hafi (gamla) flugstöðin lent inni í herstöðinni miðri.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Þetta kom þó ekki að sök á meðan flugvöllurinn var einungis áningarstaður og umferð fremur lítil. Flutningur millilandaflugs íslensku flugfélaganna Loftleiða, og síðar Flugfélags Íslands, frá Reykjavík til Keflavíkur á sjöunda áratugnum gerbreytti myndinni og borgaralegt flug stórjókst. Það var því ljóst að leita varð nýrra leiða og gerð nýrrar flugstöðvar og athafnasvæðis á nýjum stað markaði farsælar lyktir á miklu þjóðþrifamáli sem átt hafði sér langan aðdraganda. Það var öðrum þræði samvinna íslenskra og bandarískra stjórnvalda til þess að skilja farþegaflug frá starfsemi varnarliðsins enda greiddu Bandaríkin um tvo þriðju hluta heildarkostnaðar við framkvæmdina,“ sagði Björn m.a. í ræðu sinni.

Við vígsluathöfnina fyrir þrjátíu árum var einnig tekið fram að framkvæmdin myndi síður en svo verða skuldabaggi á skattborgurum landsins. Flugstöðin myndi að öllu leyti standa undir sér og á endanum skila ríkissjóði umtalsverðum tekjum.

Þetta hefur gengið eftir þótt enn sé nokkuð í að beinum tekjum verði skilað í ríkissjóð. Ríkissjóður greiddi reyndar ekki krónu af sínum kostnaðarhluta við bygginguna heldur tók lán sem greidd hafa verið upp með rekstrartekjum.    

Björn Ingi Knútsson, fyrrv. flugvallarstjóri, Jón Böðvarsson og Jón B. Guðnason fengu Keflavíkurflugvöll í „fangið“ þegar Varnarliðið fór árið 2006. Þeir unnu saman að því að flytja starfsemi sem var áður undir nafni Varnarliðsins til íslenskra yfirvalda.

Björn Óli, forstjóri Isavia tók á móti innrömmuðum fyrstadagsumslögum með frímerki af flugstöðinni sem gefin voru út við opnun stöðvarinnar 1987 Bandaríski arkitekinn Hans Faassen sem starfaði við hönnun stöðvarinnar mætti með umslögin á 30 ára afmælinu.

Fjölmargir gestir fögnuðu 30 ára afmæli flugstöðvarinnar.

Vígsla Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var að sjálfsögðu forsíðu- og baksíðuefni Víkurfrétta á sínum tíma og birtist í blaðinu daginn eftir 15. apríl 1987.