Rík áhersla á grunnþjónustu sveitarfélaga
Gjaldskrármál Reykjanesbæjar voru nokkuð til umræðu á bæjarstjórnarfundi í gær en framundan er gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Fulltrúar minnihlutans leggja mikla áherslu á að gjaldskrá verði ekki hækkuð frá því sem nú er í ljósi þess efnahagsástands sem nú ríkir í þjóðfélaginu.
Eysteinn Eyjólfsson, fulltrúi A-lista vakti máls á gjaldskrármálunum vegna erindis frá Félagi eldri borgara til bæjarráðs varðandi fasteignaskatt. Benti hann á að Reykjanesbær miðaði við fasta krónutölu á meðan önnur sveitarfélög miðuðu við hlutfall af tekjum gjaldenda. Eysteinn hvatti meirihlutann til að endurskoða gjaldskrá bæjarins með tilliti til þeirra sem stæðu hallari fæti fjárhagslega.
Nokkuð var rætt um grunnþjónustu sveitarfélagsins og nauðsyn þess að standa vörð um hana í þeim efnahagshremmingum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Árni Sigfússon, bæjarstjóri, sagði mestu máli skipta að halda atvinnustiginu uppi. Það væri forsenda þess að hægt væri að standa vörð um grunnþjónustuna.
Á nýlegum ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitafélaga sagði Kristján L. Möller, ráðherra sveitarstjórnarmála, mikilvægt að ríki og sveitarfélög stæðu saman um að varðveita grunnþjónustu og velferð borgaranna. Fagnaði hann sérstaklega því frumkvæði sem nokkur sveitarfélög hefðu sýnt með breytingum á áætlunum á þann veg að láta velferðarmál njóta forgangs en fresta frekar verkefnum sem hefðu minni þýðingu á tímum sem þessum.
Þá má geta þess að í nýlegri, sameiginlegri yfirlýsingu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála, eru sveitarfélög hvött til að endurskoða fjárhagsáætlanir sínar og gera jafnframt aðgerðaáætlanir þar sem forgangsröðun verkefna miði að því að treysta stoðir grunnþjónustunnar. Mörg sveitarfélög vinna nú að slíkri aðgerðaráætlun.
VFmynd elg: Höfuð, herðar, hné og tær - Börn á leikskóla í Reykjanesbæ. Flestir eru sammála um að standa verði vörð um grunnþjónustu sveitarfélaganna.