Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Rifist um ruslið í bæjarstjórn
Miðvikudagur 7. mars 2012 kl. 00:38

Rifist um ruslið í bæjarstjórn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hart var deilt um tilboð Bandaríkjamanna í sorpeyðingarstöðina Kölku á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram bókun þar sem alfarið er lagst gegn sölu á Kölku en fulltrúar meirihlutans Sjálfstæðisflokksins ásamt fulltrúa Framsóknar voru á öðru máli og sögðu að skoða þyrfti málið betur.

„Samfylkingin í Reykjanesbæ hafnar öllum hugmyndum um sölu á sorpeyðingarstöðinni Kölku til erlendra aðila grundvölluðum á innflutningi á iðnaðarsorpi til brennslu á Suðurnesjum,“ segir m.a. í bókun Samfylkingarinnar.

Böðvar Jónsson, Sjálfstæðisflokki og forseti bæjarstjórnar sagði bókun Samfylkingarinnar óábyrga og frumhlaup þar sem margir þættir í þessu máli væru ekki á hreinu. Því væri það ekki góð stjórnsýsla að slá málið út af borðinu án þess að skoða það nánar.
Kristinn Jakobsson, Framsóknarflokki tók undir orð Böðvars og sagði sölu á Kölku geta verið góða leið m.a. til að laga fjárhagsstöðu hennar. Stöðin væri sú eina á landinu sem uppfyllti skilyrði Evrópusambandsins hvað varðar staðla í umhverfismálum.
Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar sagði að þau gögn sem lögð hefðu verið fyrir bæjarfulltrúa hefðu verið skoðuð og kynnt á vel sóttum fundi sl. laugardag sem félagsmenn sóttu og niðurstaðan hefði verið sú að mótmæla sölu á Kölku.

Nánari umfjöllun um málið verður í Víkurfréttum á fimmtudag ásamt viðtali við stjórnarformann Kölku sem svarar spurningum blaðsins.

Bókun Samfylkingarinnar frá bæjarstjórnarfundi í gær:
Það er ekki gott veganesti með nýsamþykktri framtíðarsýn Reykjanesbæjar að selja eina af grunnstoðum sveitarfélagsins til erlendra aðila í því skyni að flytja inn iðnaðarsorp til brennslu.


Á Suðurnesjum er einn helsti vaxtarbroddur ferðaþjónustunnar á Íslandi og sveitarfélögin öll hafa stefnt að því að markaðssetja svæðið fyrir innlenda og erlenda aðila. Óhætt er að fullyrða að það verði ekki ferðaþjónustunni til framdráttar að stækka brennslustöðina og brenna í henni innflutt iðnaðarsorp frá Bandaríkjunum.


Ekki verður séð af þeim samningsdrögum sem liggja fyrir að í þeim sé falin framtíðarlausn á sorpeyðingu bæjarins né heldur að kostnaður bæjarins minnki. Allar fullyrðingar í þá veru eru óraunhæfar.


Við teljum heldur ekki forsvaranlegt að bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar hafi frumkvæði að því að afsala fyrirtækinu sem býður í hlutinn þá umhverfisábyrgð sem rekstri sorpeyðingarstöðvar fylgir.

Þá er ljóst að viðsnúningur hefur orðið á rekstri Kölku og núverandi stjórn félagsins telur möguleika á að gera fyrirtækið rekstrarhæft þannig að reksturinn standi undir sér og undið verði ofan af þeim fortíðarvanda sem háð hefur stöðinni.


Samfylkingin í Reykjanesbæ telur því fyrirhugaða sölu á Kölku hvorki farsæla lausn né ódýrari til lengri tíma litið og það eigi að vera metnaðarfullt markmið hverrar sveitarstjórnar að tryggja til langrar framtíðar ábyrga stefnu hvað varðar sorphirðumál síns sveitarfélags.


Samfylkingin í Reykjanesbæ hafnar öllum hugmyndum um sölu á sorpeyðingarstöðinni Kölku til erlendra aðila grundvölluðum á innflutningi á iðnaðarsorpi til brennslu á Suðurnesjum.

Verði það niðurstaða meirihluta bæjarstjórnar að halda áfram á vegferð þessari leggjum við höfuðáherslu á að endanleg ákvörðun verði ekki tekin af bæjarstjórn nema í nánu samstarfi við eigendur hlutarins í Kölku, sem eru íbúar Reykjanesbæjar.


Það verður best gert með því að halda borgarafund um málið og efna til íbúakosningar í kjölfarið. Ljóst er að ákvörðunin mun hafa mikil áhrif á framtíðarímynd bæjarins og lífskilyrði bæjarbúa og því ber bæjarstjórn Reykjanesbæjar að afgreiða málið í fullri vissu um vilja bæjarbúa. Þannig er lýðræðinu best þjónað.

Friðjón Einarson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson.