Rifið innan úr Festi í sumar
Bæjarráð Grindavíkur hefur samþykkt að fara í bráðabirgðaaðgerðir til þess að hindra frekari skemmdir á Festi. Samkvæmt ástandsskýrslu er húsið illa farið að innan en útveggir nokkuð heillegir.
Heildarkostnaður við þær framkvæmdir er allt að 10 milljónir króna samkvæmt útreikningum forstöðumanns tæknisviðs. Erindinu var vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar í apríl n.k.
Bæjarráð áformar að farið verði í niðurrif innanhúss í Festi sem átaksverkefni í sumar en þá er miðað við að þarna skapist vinna fyrir þá sem hugsanlega verða á atvinnuleysisskrá.
Bæjarráð ákvað á fundi sínum þann 18. febrúar síðastliðinn að tilnefna þriggja manna stjórn til þess að vera leiðandi í hugmyndavinnu um Festi og miðbæjarskipulag.
Af www.grindavik.is
---
Mynd/grindavik.is - Mörgum Grindvíkingum er annt um félagsheimilið Festi og finnst dapurt að horfa upp það í núverandi ástandi. Það hefur m.a. orðið skotspónn skemmdarvarga, eins og þessi mynd sýnir.