Reynt verður að lágmarka ónæði vegna flugumferðar
Íbúar kvarta vegna hávaða frá flugumferð sem er meiri vegna viðgerðar á flugbraut
Nokkrir íbúar Reykjanesbæjar hafa kvartað, bæði til bæjaryfirvalda og Isavia, vegna hávaða frá flugumferð við Keflavíkurflugvöll en vegna framkvæmda við norður-suður braut vallarins hafa vélar flogið tíðar yfir byggð í Njarðvík en áður. Norður-suður brautin verður lokuð í allt sumar vegna malbikunarframkvæmda og er áætlað að verkinu ljúki í lok september.
Á meðan framkvæmdirnar standa yfir mun öll flugumferð fara um flugbrautina sem liggur austur-vestur. Flugvélar sem taka á loft í austur eða koma til lendingar úr austri fara yfir byggð í Njarðvík í meira mæli en þegar báðar brautirnar eru í notkun. Af því tilefni áttu Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri og Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, fund í gær með fulltrúum Isavia, þeim Haraldi Ólafssyni, yfirflugumferðarstjóra í Flugturninum á Keflavíkurflugvelli og Þresti Söring, framkvæmdastjóra Keflavíkurflugvallar þar sem þessi mál voru rædd. Niðurstaða fundarins var sú að reynt verður að lámarka ónæði vegna flugs yfir byggðir Reykjanesbæjar með því að notast við flugtaksferla til að minnka hávaðamengun sem og að beina flugumferð sem mest út yfir Hvalsnes. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
Í máli Haraldar og Þrastar á fundinum kom fram að ákveðið hafi verið að reyna að lágmarka ónæði vegna flugs, meðal annars með því að notast við flugtaksferla sem miða að því að hreyflum sé beitt þannig að þeir valdi sem minnstum hávaða. Í öðru lagi á að beina flugumferð sem mest um vestari enda flugbrautarinnar, sem liggur út af Hvalsnesi, þegar það er hægt en því tengjast margir aðrir þættir svo sem eldsneytisnotkun, flugtími og fleira.
Á vef Reykjanesbæjar segir að góður andi hafi ríkt á fundinum og greinilegt að fulltrúar Isavia og stærstu flugfélaganna hafi ríkan vilja til að lágmarka það ónæði sem íbúar á Suðurnesjum kunna að verða fyrir vegna þessara framkvæmda í sumar. Til að mynda á að leggja sérstaka áherslu á notkun vestari enda brautarinnar á tímabilinu 23:00 til 07:00 þegar aðstæður leyfa. Einnig stendur til í haust að koma upp mælitækjum þar sem hægt verður, í gegnum heimasíðu Isavia, að nálgast lifandi hávaðamælingar í rauntíma.