Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reynt að ná Sigurvini GK á land
Föstudagur 23. janúar 2004 kl. 16:21

Reynt að ná Sigurvini GK á land

Unnið er að því að ná Sigurvini GK á land eftir að báturinn fórst utan við brimvarnargarðinn í Grindavík fyrir hádegi, en tveimur skipverjum var bjargað um borð í slöngubát björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.
Um klukkan 15 hófu félagar í björgunarsveitinni Þorbirni að ná bátnum á þurrt, en báturinn er mikið skemmdur. Stefnt er að því að ná bátnum upp í fjöruna við brimvarnargarðinn. Félagar úr björgunarsveitinni óðu að Sigurvini þar sem hann lá á hliðinni í fjörunni og komu fyrir spotta í bátnum. Til að hífa bátinn upp í fjöruna var notast við spil á bifreið björgunarsveitarinnar.
Fulltrúi frá tryggingafélaginu Sjóvá Almennum sagði í samtali við Víkurfréttir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort reynt verður að gera við bátinn og að aðalmálið væri að ná honum á land.
Báturinn, sem er rúmlega 12 tonna plastbátur er mikið skemmdur á hliðinni og er perustefni bátsins mölbrotið.

VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Félagar úr Þorbirni í Grindavík reyna að ná Sigurvini GK á land. 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024