Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Reynt að endurskoða eina uppsögn innan slökkviliðsins
Miðvikudagur 6. október 2004 kl. 17:29

Reynt að endurskoða eina uppsögn innan slökkviliðsins

Mikil óánægja er með uppsagnir sautján slökkviliðsmanna í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli. Vernharð Guðnason, formaður Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutingamanna (LSS), segir málið ekki einungis varða slökkviliðsmenn uppi á velli heldur alla starfsstéttina.

Í gær héldu slökkviliðsmenn uppi á Keflavíkurflugvelli félagsfund og sendu í kjölfarið frá sér harðorða ályktun þar sem m.a. kom fram að með uppsögnunum hafi slökkviliðsmenn verið settir í gíslingu. ,,Það eru allir mjög langt niðri vegna þessa máls og það er skiljanlegt því aðferðin sem var notuð við uppsagnirnar er óskiljanleg. Það skilur enginn hvernig þeir einstaklingar, sem sagt var upp, voru valdir og um það eru ekki til neinar skýrar reglur,” sagði Vernharð í samtali við Víkurfréttir í dag.

Vernharð kærði sig ekki um að fara út í þá umræðu að uppsagnirnar mætti rekja til klíkuskapar en hann taldi engu að síður eðlilegt að ófaglærðir menn vikju fyrir sér reyndari mönnum. ,,Það eina sem ég veit fyrir víst í augnablikinu er að það á að reyna að endurskoða eina uppsögnina en hvenær það verður gert veit ég ekki,” sagði Vernharð sem átti ekki von á því að beinar samræður deiluaðila muni eiga sér stað. LSS mun fara með málið eins langt og til þarf og telur Vernharð að Utanríkisráðuneytið þurfi að koma að málinu.

VF-mynd/ úr safni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024